Það styttist í að jólahátíðin gangi í garð, en dagana 15. og 16. desember er vika til jóla, sem þýðir að það er eins gott að drífa í að kaupa jólatré og skreytingar. Þá um helgina verður úrvalið verulega mikið og full ástæða til að líta í heimsókn í jólaskóginn við Kaldárselsveg, líta á tré og skreytingar og þiggja heitt súkkulaði og meðlæti. Hér sjást nokkrar skreytingar í pottum sem tilvalið er að hafa úti á svölum, á tröppunum, stigapallinum eða við útidyrnar. Þetta er aðeins brot af úrvalinu og svo eru barrtrén sérlega falleg, hvort sem um er að ræða furutré, rauðgreni, blágreni eða aðrar tegundir. Borðskreytingar og leiðisskreytingarnar af ýmsu tagi eru sérlega fallegar og þær eru gerðar með það í huga að þær séu umhverfisvænar enda falla þær vel að nútímakröfum um endurvinnslu. Einnig er hægt að kaupa greinar og köngla og útbúa eigin skreytingar.