Hin svokallaða jólafuglatalning fór fram helgina 27. – 28. desember síðastliðinn. Eins og mörg undanfarin ár töldu Hannes Þór Hafsteinsson og Steinar Björgvinsson svæði það er kallast "Hafnarfjörður austan Reykjanesbrautar". Innan þess er athafnasvæði Skógræktarfélagsins. Töldu þeir félagar á laugardeginum í björtu, stilltu en köldu veðri. Var hitinn til að mynda -14°C í Sléttuhlíð um miðbik dagsins. All mikill snjór var yfir öllu. Eftirfarandi fuglategundir sáust á svæðinu:
Snjótittlingar
Auðnutittlingur – Aðeins 1 stk!
Skógarþrestir
Svartþrestir – fleiri svartþrestir en skógarþrestir sáust.
Starar
Hrafnar
Músarrindlar
Glókollar – Ekki sáust margir í ár.
Glóbrystingur – Hefur haldið til við Þöll.
Urtendur
Stokkendur
Álft
Grágæsir
Fálki
Hrossagaukar – Hrossagaukar eru að lang mestu leyti farfuglar. Nokkrir gaukar sáust við affallið neðan við Hlíðarþúfur og svo nokkrir þar sem volgt vatn rennur í Ástjörn og í skurðum þar hjá.
Dvergsnípur – 2 stk sáust í affallinu frá hesthúsunum í Hlíðarþúfum. Dvergsnípa líkist litlum hrossagauk. Verpur í N-Skandinavíu og Rússlandi.
Skógarsnípa – Sást við Hamarkotslæk skammt frá Staðarbergi. Önnur fannst dauð við Ástjörn. Skógarsnípa er sjaldgæfur varpfugl í skóglendi hérlendis.
Keldusvín – Spor eftir keldusvín sáust við Hamarskotslæk og við Ástjörn. Keldusvín er mjög felugjarnt. Almennt ekki talið verpa hérlendis lengur en sést hér árlega.