Steinar Björgvinsson framkvæmdarstjóri Skógræktrafélags Hafnarfjarðar fór fyrir göngu um Hellisgerði fimmtudagskvöldið 31. júlí 2014. Gangan var hluti af verkefni sem Menningar- og listamiðstöðin Hafnarborg og Byggðasafn Hafnarfjarðar standa að í sumar og snýr að ýmsum þáttum í menningu og sögu bæjarins.
Steinar hóf gönguna við innganginn að Hellisgerði við Reykjavíkurveg og mættu um 150 manns til að hlýða á mál hans. Steinar fræddi viðstadda til að byrja með um trjáplöntur sem eru við innganginn en fór síðan með hópinn að tveimur merkilegum trjám í Stórugjótu skammt frá gosbrunninum í Hellisgerði. Þar er annarsvegar beykitré frá fyrstu árum garðsins og hinsvegar gráösp, sem var flutt inn frá Danmörku um 1930. Gráaspir eru ekki margar á Íslandi og þegar aldurinn færist yfir þær eiga þær til að falla og við það rifna ræturnar upp úr jarðveginum. Gráöspin í Stórugjótu hefur ekki náð að rótafestast nógu vel enda er jarðvegurinn grunnur í hrauninu þannig að hún féll fyrir nokkrum árum og lagðist ofan í gosbrunninn. Ráðist var í að rétta hana við og stendur hún ágætlega í dag. Gráaspir eiga það til að fjölga sér með rótarskotum og það hefur gerst annars staðar í Hellisgerði. Gömlu beykitrén sem eru frá svipuðum tíma eru fjögur talsins en síðan hefur í það minnsta fjórum til viðbótar verið plantað út í garðinum sem þýðir að þetta er einn merkilegasti ræktunarreitur beykitrjáa á Íslandi.
Næst var litið á blæaspir sem komu sennilega frá Vöglum í Fnjóskadal, en þaðan komu mörg tré á fyrstu árum garðsins. Þetta eru íslensk tré sem fjölga sér á svipaðan hátt og gráöspin með rótarskotum en blæaspir eru ekki algengar í íslenskum görðum eins sérkennilegt og það kann að virðast. Á svipuðum slóðum eru hávaxin sitkagrenitré sem eru u.þ.b. tuttugu metra há og mikið af reynitrjám úr Þórsmörk og sunnan úr Hraunum við Hafnarfjörð ásamt birkitrjám sem komu úr Þórsmörk árið 1923.
Steinar sagði frá ýmsu öðru markverðu í Hellisgerði þ.á.m. dögglingsviði sem er ættaður frá Douglas í Bandaríkjunum, en það er aðeins eitt tré lifandi af þeim fjórum sem upphaflega voru gróðursett í garðinum.
Trén sem eru í garðinum eru frá ýmsum tímum, þau yngstu eru innan við eins árs gömul. Eitt af nýjustu trjánum er Síberíugreni sem var gróðursett á síðasta ári. Hellisgerði er vel í sveit sett og full ástæða til að huga að því að gróðursetja þar fleiri sjaldgæfar trjátegundir sem gætu þrifist ágætlega vegna þess að skjólið í garðinum er gott og það hefur sannað sig að óvenjulegar jurtir eiga gott með að þrífast þar. Áður fyrr var gríðarlega mikið magn af fjölærum plöntum í garðinum en þeim hefur fækkað með árunum þar sem lítil sem engin rækt hefur verið lögð við þær, sem er miður. Fjölærar plöntur eins og Garðabrúða og Eldlilja voru afar vinsælar í görðum landsmanna á árum áður, en þær hafa einhverra hluta vegna misst aðdráttaraflið á síðustu árum sem þýðir að það er enn meiri ástæða til að gæta þess að vanrækja þær ekki í skrúðgörðum og grasagörðum landsins.
Núna í sumar hefur Hellisgerði notið þess að aukið fjármagn var lagt til garðrins í tilefni af 90 ára afmælinu á síðasta ári og fjórir starfsmenn hafa sinnt garðinum af alúð í sumar. Samt sem áður er margt sem betur má fara enda er það þannig að alltaf má gera betur alveg sama hversu vel er að verki staðið. Það má samt ekki vanmeta það sem vel er gert og það er full ástæða er til að þakka bæjaryfirvöldum fyrir að leggja aukinn metnað í umsjá og umhirðu Hellisgerðis.
Það má ekki gleyma Hollvinafélagi Hellisgerðis sem hefur lagt sig fram um að sinna garðinum eins og kostur er. Meðal þeirra verkefna sem félagið hefur staðið að er að merkja athyglisverð tré í garðinum. Það er ánægjulegt til þess að vita að Hafnfirðingar bera mikla virðingu fyrir þessum paradísarreit í miðju bæjarins.
Hellisgerði er perla sem bæjarbúar geta verið stoltir af, en það verða allir að hafa metnað til þess að láta þennan merkilega stað njóta sannmælis.