Skógræktarfélag Hafnarfjarðar þakkar þeim garðeigendum sem opnuðu garða sína fyrir göngufólki í dag (laugardaginn 18. okt) kærlega fyrir.
Ann Mari Hansen tók á móti okkur að Stekkjarbergi 11 (Skálaberg). Þar hóf faðir hennar trjárækt um 1945. Sitkagreni sunnan við hús mældist 15,25 m á hæð. Evrópulerki um 9 m. Alaskaösp austan við hús mældist 16 m á hæð. Sitkagreni norðan við hús 16 m. Gráölur framan við hús mældist 11 m á hæð og án efa hávaxnasti gráölur í bænum. Alaskaösp norðan við hús mældist 17, 5 m á hæð.
Næst var komið við að Sólbergi 2 þar sem búa Sigurður Einarsson stjórnarmaður í félaginu og kona hans Birna Jósefsdóttir. Þar mátti sjá ýmsar tegundir trjáa og runna þ.á.m. ávaxtatré og gráösp.
Næst var komið við að Hólsbergi 11 þar sem hjónin Kristín Einarsdóttir og Haukur Bachmann búa. Garðurinn er einstaklega fallegur og vel skipulagður með fjölda tegunda trjá og runna. Sjá mátti m.a. gullfiska í tjörn í garðinum. Einstaklega fallegt samspil lita og forma.
Garður hjónanna Jóhannesar Einarssonar og Pálínu Pálsdóttur er nýlega upp gerður. Einstaklega smekklegur garður með fjölda tegunda trjáa og runna m.a. af sjaldgæfum tegundum.
Sigurður Haraldsson og Valgerður Guðrún Halldórsdóttir tóku á móti okkur í garði sínum að Fagrabergi 46. Þar gaf m.a. að líta einstaklega fallegt síberíulerki sem reyndist vera 8,75 m á hæð.
Að síðustu var komið við að Glitbergi 5 hjá Höllu Thoroddsen og Kjartani Pálmasyni. Þar er gamall og fjölbreyttur trjágróður. Elstu tréin eru frá 5. áratug síðustu aldar. Hæsta alaskaöspin reyndist vera 18,75 m og þar með hávaxnasta tré hverfisins. Sitkagreni í sömu lóð reyndist vera 14,5 m á hæð.
Á myndinni er hópurinn staddur í garði Ann Mari Hansen Stekkjarbergi 11 (Skálaberg).