Á fyrstu árum Skógræktarfélags Hafnarfjarðar var haldinn sjálfboðaliðadagur á vorin, en síðan var þessu hætt. Fyrir nokkrum árum var ákveðið að reyna þetta á nýjan leik að hausti til þegar sumarstarfsfólkið hefur hætt störfum. Heppnaðist þessi tilraun það vel að síðan hefur þetta verið árlegur viðburður. Öllum er frjálst að mæta og taka þátt í gróðursetningunni og læra um leið réttu handtökin. Starfsfólk og félagsmenn veita góð ráð og svara spurningum um mismunandi tegundir trjáplantna og skapast jafnan mjög góð stemning.
Fyrstu tvö árin var gróðursett í Seldal en eftir það hefur áhersla verið lögð á að planta út fjölbreyttum tegundum í Vatnshlíð norðan Hvaleyrarvatns. Á þessum slóðum var landið örfoka þegar félagið var stofnað árið 1946. Þetta var beitiland hafnfirskra sauðfjárbænda til 1990, en eftir það var landið friðað fyrir beit og landbætur hófust með hjálp lúpínu. Landið hefur tekið stakkaskiptum á þessum tíma.
Minningarlundur um hjónin Hjálmar R. Bárðarson og Else S. Bárðarson var útbúinn í Vatnshlíð og tekinn formlega í notkun á Skógar- og útivistardegi fjölskyldunnar sumarið 2012. Ári fyrr hófst umfangsmikil útplöntun trjágróðurs í Vatnshlíð, en þar voru miklar breiður af lúpínu. Hjálmar hafði tröllatrú á lúpínunni og arfleiddi Landgræðslusjóð að hluta eigna sinna gegn því að fénu yrði varið til landgræðsluskógræktar „þar sem áður var lítt gróið bersvæði, ef til vill þar sem gróðursett lúpína hefur gert landsvæði vænlegt til skógræktar“. Þessi sjóður styður við þetta gróðursetningarverkefni, sem er unnið alfarið af sjálfboðaliðum.
Milli 40 og 50 manns mættu laugardagsmorguninn 13. september 2014 og gróðursettu 1.600 stálpaðar trjáplöntur af mismunandi tegundum í lúpínubreiðurnar. Byrjað var á því að koma fyrir minningarskilti um þau hjónin á minningarreitnum, en síðan var hafist handa neðan við minningarreitinn. Þegar búið var að setja niður nokkur hundruð trjáplöntur á neðra svæðinu var farið ofar í Vatnshlíðina þar sem megnið af trjágróðrinum var plantað út. Veðrið var eins og best verður á kosið, sannkölluð síðsumarblíða og gekk verkið vel fyrir sig. Að gróðursetningu lokinni var öllum boðið að þiggja kjötsúpu, smurbrauð og kaffi í starfsstöð félagsins í Selinu.