Fimmtudaginn 16. ágúst síðastliðinn hittust afkomendur Halldóru Halldórsdóttur og Þórólfs Þorgrímssonar í Höfðaskógi og gróðursettu 90 trjáplöntur í Dórulund í Höfðaskógi en Halldóra varð níræð fyrr á árinu og Þórólfur verður níræður í desember. Rúmlega 50 manns mættu þennan sólríka dag. Eftir gróðursetningu í Dórulund var boðið upp á grillað lambalæri og meðlæti.
Halldóra og Þórólfur gáfu félaginu nýtt sexhjól í fyrra og núna bættu þau um betur og gáfu félaginu snjóruðnings-tönn á hjólið sem mun nýtast vel til að ryðja stíga í skóginum, kringum Hvaleyrarvatn og við Þöll og Höfða.
Félagið þakkar þeim heiðurshjónum kærlega fyrir þessar glæsilegu gjafir sem munu og hafa svo sannarlega reynst vel og létt okkur störfin.
Myndin er af Þórólfi og Halldóru við sexhjólið í Dórulundi í Höfðaskógi fimmtudaginn síðastliðna 16. ágúst 2018.