Undanfarna daga hafa starfsmenn félagsins unnið að grisjun skógarins í norðurhlíðum Selhöfða við Hvaleyrarvatn. Byrjað var að gróðursetja í Selhöfðann upp úr 1980. Mest var gróðursett af stafafuru sem þrifist hefur mjög vel. Er hún fyrir löngu farin að sá sér út. Einnig er nokkuð af sitkagreni og eitthvað af síberíulerki í hlíðinni. Á næstunni stendur svo til að grisja skóginn nyrst í Undirhlíðum í átt að Kúadal. Ásamt því að grisja eru tréin sums staðar kvistuð upp til að auðvelda fólki að ganga inn í skóginn. Í Selhöfðanum hafa verið ruddir og lagðir göngustígar. Talsvert efni fellur til. Sumt hefur verið flutt burt, annað kurlað á staðnum og annað látið liggja eins og greinar. Með því að láta hluta af grisjunarefninu liggja skila næringarefni sér aftur út í umhverfið sem bundin eru í vefjum trjánna.
Flokkur: Fréttir 2015