Við óskum félögum og velunnurum árs og friðar. Á árinu sem er að líða náði fjöldi félaga loks 1.000. Þar með er Skógrætarfélag Hafnarfjarðar annað fjölmennasta skógræktarfélag landsins á eftir Skógræktarfélagi Reykjavíkur en skógræktarfélögin eru um 60 talsins hringinn í kringum landið. 120 fermetra vélaskemma og verkstæði var reist á árinu. Skemman mun bæta mjög alla aðstöðu félagsins til að geyma tæki sín og tól auk þess að skapa aðstöðu til smíða, viðhalds og þess háttar.
Aldrei hafa fleiri notið skóga félagsins eins og í fyrra og í ár. Áberandi hefur verið frá því snemma árs 2020 hversu margir gestir eru flesta daga við Hvaleyrarvatn, í Höfðaskógi, við Kaldársel og víðar í upplandi bæjarins.
Jólatrjáa- og skreytingasala félagsins hefur aldrei gengið eins vel og fyrir jólin í fyrra og nú ár. Jólatrjáasala félagsins er ein helsta tekjulind félagsins. Fjöldi sjálfboðaliða kom að jólatrjáasölunni í ár eins og svo mörg undanfarin ár.
Á nýju ári verður haldið áfram að bæta aðgengi og aðstæður í skóglendum félagsins í samstarfi við Hafnarfjarðarbæ. Haldið verður áfram með „Græna stíginn“ frá Hvaleyrarvatnsvegi og upp í Kaldársel. Ný bílastæði munu verða útbúin við austur- og vesturenda Hvaleyrarvatns og lokað fyrir akandi umferð með bökkum Hvaleyrarvatns. Svo verður auðvitað haldið áfram að rækta skóg, grisja eldri trjálundi, laga stíga og þess háttar.
Gleðilegt ár: Stjórn og starfsfólk Skógræktarfélags Hafnarfjarðar.