Laugardaginn kemur 18. október stendur félagið fyrir göngu um Setbergshverfið í Hafnarfirði. Hugað verður að trjágróðri í hverfinu. Hvert er hæsta tréð? Lagt af stað frá Setbergsskóla Hlíðarbergi 2 kl. 10.00. Gangan tekur um tvær klukkustundir. Allir velkomnir.
Stjórn og starfsfólk
Nánari upplýsingar:
Hugað verður að trjágróðri í hverfinu, en þar eru nokkur tré frá miðri síðustu öld sem hafa náð talsverðum þroska auk trjágróðurs frá síðustu áratugum.
Setbergshverfi er ekki mjög gamalt en íbúarnir hafa verið iðnir við að sinna garðrækt og þar er fjölskrúðugur trjágróður sem hefur vaxið og dafnað vel á undanförnum árum. Áður en Setbergshverfi byggðist voru reist nokkur hús í Setbergslandi, flest um og eftir miðja síðustu öld. Meðal þeirra sem byggðu hús í jaðri Stekkjarhrauns voru Þórður Reykdal og Jóna eiginkona hans. Þórður var sonur Jóhannesar Reykdal sem átti Setbergsjörðina og bjó sjálfur um skeið í húsinu Þórsbergi. Þórður og Jóna Reykdal byggðu hús á fallegum stað þar sem ferskvatnslindin Lambadrykkur myndaði litla tjörn og smálæk. Þau nefndu húsið Lindarberg og lögðu mikla rækt við landið í kringum húsið og fengu verðlaun fyrir garðrækt árið 1987. Þegar verðlaunin voru afhent var tekið fram að þau hjón hefðu náttúruvernd í fyrirrúmi, íslenska flóran nyti sín sérstaklega vel ásamt uppsprettulindinni og að í garðinum væri mjög fallegur trjágróður. Þórður hlaut verðlaun á nýjan leik fyrir garðinn árið 2002, en þá bjó hann einn í húsinu sínu. Núna hefur þetta hús verið rifið, en lóðin er 2.400 fm að stærð og nýir eigendur hafa áhuga á að byggja þar 11 rað- og parhús. Það er full ástæða til að huga aðeins að þeim trjágróðri sem er á lóðinni. Á næstu lóð við hliðina byggðu Skúli Hansen vélsmiður og kona hans Else Hansen húsið Skálaberg. Þau lögðu mikla rækt við garðinn sinn og þegar Skúli lést 1964 var við heimili hans einn fegursti og stærsti blóma- og trágarður í einkaeigu í nágrenni Hafnarfjarðar. Þarna eru myndarleg tré sem gætu verið með þeim allra hæstu í Hafnarfirði. Nokkur tré verða mæld á meðan á göngunni stendur til að finna út úr því hvert er hæsta tréð í Setbergi.
Lagt verður af stað frá Setbergsskóla Hlíðarbergi 2 kl. 10.00. Gangan tekur um það bil tvær klukkustundir. Allir velkomnir.