Fundargerð stjórnar Skógræktarfélags Hafnarfjarðar haldinn í Selinu þann 31. janúar 2024, kl 17.30.
Mætt: Sigurður Einarsson, Gyða Hauksdóttir, Árni Þórólfsson, Magnús Gunnarsson, Hallgrímur Jónasson (ritari), Ingvar Viktorsson, Jónatan Garðarsson ásamt Steinari Björgvinssyni framkvæmdastjóra.
1 Stöðuyfirlit frá framkvæmdarstjóra
Formaður stjórnar þakkaði starfsmönnum og stjórn fyrir gott starf á síðasta ári.
Sala jólatrjáa gekk vel, seldur var svipaður fjöldi trjáa og undanfarin ár, en fleiri seld tré voru úr ræktarlandi félagsins, aukin sala tröpputrjáa og góð sala í skreytingum leiðir til betri afkomu fyrir félagið. Sala til bæjarins tengd Jólaþorpinu var góð.
Nokkur umræða um var starfsmannamál, en félagið er með um 6 stöðugildi að jafnaði. Félagið stendur fyrir frágangi aðstöðuhúss auk byggingu tveggja gróðurhúsa. Stjórnarmenn lögðu áherslu á að vel sé staðið að framkvæmdunum og haldið vel utanum kostnað.
Endurskoðandi vinnur að uppgjöri fyrir árið 2023.
2. Umsagnir um skipulagsmál
Ritari lagði inn tvær umsagnir stjórnar varðandi skipulagsmál, annars vegar Kaldárhraun og gjárnar, verndaráætlun og aðgerðaráætlun, lögð inn til Umhverfisstofnunar þann 24. Nóvember 2023 (sjá fylgiskjal 1), hins vegar Tillaga að breytingu á deiliskipulagi Vatnshlíðar, Hvaleyrarvatns, Höfða og Hamraneslínu, mál 3/2023, til Umhverfis- og skipulagssviðs Hafnarfjarðar þann 11. Janúar 2024 (sjá fylgiskjal 2).
3. Fjármál félagsins – styrkur Hafnarfjarðarbæjar ofl.
Félagið er með þjónustusamning við Hafnarfjarðarbæ. Framlag bæjarins er nú 1,47 millj. kr. á mánuði og tekur til gróðursetningar, stígagerðar, grisjunar, hreinsunar á kjarri meðfram vegum og stígum, vöktun, móttöku hópa og almennrar hreinsunar auk umhverfisvaktar sem felst í að losa ruslatunnur, hreinsa meðfram vegum og bílastæðum og að hreinsa WC við Skátalund. Framlagið hefur lítið hækkað undanfarin ár, ekki fylgt verðlagi og auknu umfangi sem kemur til vegna aukinnar umferðar á svæðinu.
Umræða um að leitast við að fá leiðréttingu á framlaginu, meðal annars með því að kynna starfið fyrir forsvarsfólki hjá bænum með að bjóða því í heimsókn og svo að standa að viðræðum um endurskoðun samnings. Gert er ráð fyrir að félagið standi fyrir kynningu með vorinu.
Jafnframt var lögð áhersla á að félagið og stjórnarmenn séu vakandi fyrir möguleikum á að sækja stuðning til að efla starf félagsins.
4. Önnur mál
Ákveðið að halda aðalfund félagsins þann 11. apríl n.k. í Hafnarborg kl. 20.00. Fram kom að Jónatan og Magnús eiga að ganga úr stjórn en báðir lýstu yfir áhuga á að halda áfram í stjórn.
Samtök sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu (SSH) munu leggja fram fjármuni til að varða „Græna stíginn“ að hluta til, u.þ.b.3 km til að byrja með, og mun vinnan hefjast í upplandi Hafnarfjarðar, þar sem stígurinn er fullbúinn á því svæði.
Nokkur umræða var um framtíðar ræktunarsvæði félagsins og var sérstaklega nefnt svæði sunnan og suðvestan við Helgafell: Slysadalur, Leirdalur, Kjóadalur og Breiðdalur, ásamt svæðinu vestan og austan við Stóra-Skógarhvamm í norðanverðum Undirhlíðum.
Fylgiskjal 1 með fundargerð
Umhverfisstofnun,
Suðurlandsbraut 24,
108 Reykjavík
Hafnarfirði 24. nóvember 2023
Málefni: Kaldárhraun og gjárnar, stjórnunar- og verndaráætlun ásamt aðgerðaráætlun
Stjórn Skógræktarfélags Hafnarfjarðar (SH) hefur fjallað um stjórnunar- og verndaráætlun fyrir Kaldárhraun og Gjárnar á fundi sínum þann 20. nóvember s.l.
Stjórn SH fagnar því að fram sé komin áætlun sem lýtur að stjórnun og vernd þessa svæðis, enda svæðið vinsælt til útivistar og mikil umferð um umrætt svæði og nágrenni þess. Hafnarfjarðarbær hefur lagt hjóla og göngustíg að umræddu svæði og má því gera ráð fyrir enn meiri umgangi og því mikilvægt að leiðbeina fólki og upplýsa um svæðið og verndargildi þess auk þess að vekja máls á þeim náttúrufyrirbærum sem fyrir augu ber.
Skógræktarfélagið er tilbúið til samráðs ef eftir því er leitað, en saknar þess að ekki hafi verið haft samband við félagið þrátt fyrir að það sé á lista yfir samráðsaðila í gögnum Umhverfisstofnunar um náttúruvættina.
Skógræktarfélagið vill vekja máls á að náttúruvættin er fyrst og fremst hraunið og myndanir þess og því hefði verið eðlilegt að afmörkun svæðisins beindist að hraunjaðrinum en ekki dregnar línur með frjálslegum hætti inná svæði sem m.a. hefur verið ráðstafað til skógræktar. Afmörkunin við Fremstahöfða nær inná svokallaðar landnemaspildur, þar sem frumkvöðlum í skógrækt er gefinn kostur á að rækta upp. Það er því mjög óheppileg áherslan á uppræta plöntur sem eru utan hins raunverulega náttúruvættis. Félagið hefur fullan skilning á mikilvægi þess að trjágróður dreifi sér ekki út í hraunið og er tilbúið til að beita sér gagnvart landnemunum og öðrum að gæta þess að gróðursetja ekki of nærri hraunjaðrinum.
Mörk náttúruvættisins við Undirhlíðar eru dregin með þeim hætti að innan náttúruvættisins er skógrækt sem skólabörn úr Hafnarfirði hófu á fyrrihluta síðustu aldar. Það kemur Skógræktarfélaginu á óvart ef ætlunin er að fjárlægja þann trjágróður, sem hefur verið þar í þetta langan tíma og ekki dreift sér nema takmarkað. Frekar mætti leggja áherslu á að varna frekari útbreiðslu á því svæði.
Að lokum vill stjórn félagsins fagna því framtaki að styrkja umsýslu á svæðinu, félagið vinnur ötullega að því að rækta upp hluta af upplandi Hafnarfjarðar, meðal annars til yndisauka fyrir gesti og gangandi. Félagið hefur átt gott samstarf við Hafnarfjarðarbæ um uppbyggingu á svæðinu og annast ýmiss verkefni í samstarfi við bæjarfélagið. Félagið vill að gætt sé að því sem fyrir er og að ekki sé farið fram með offorsi að uppræta trjágróður sem á engan hátt spillir verndum náttúruvættisins.
Virðingarfyllst
Fyrir hönd Skógræktarfélags Hafnarfjarðar
Sigurður Einarsson, formaður stjórnar
Afrit: Berglind Guðmundsdóttir,
Skrifstofa skipulagsfulltrúa, berglindg@hafnarfjordur.is
Fylgiskjal 2
Skógræktarfélag Hafnarfjarðar
V. Kaldárselsveg
221 hafnarfjörður
Umhverfis- og skipulagssvið Hafnarfjarðar
Norðurhella 2,
221 Hafnarfjörður
Hafnarfirði 11. Janúar 2024
Málefni: Tillaga að breytingu á deiliskipulagi Vatnshlíðar, Hvaleyrarvatns, Höfða og Hamranesnámu, mál 3/2024
Vísað er til auglýsingar og upplýsinga í Skipulagsgátt birt í 14. desember 2023.
Að frumkvæði bæði Landsnets og Umhverfis- og skipulagssviðs Hafnarfjarðar hefur samráð verið gott við Skógræktarfélag Hafnarfjarðar (SH) við undirbúning legu strengjanna í jörðu. SH gerir ekki athugasemd við fyrirhugaða legu eins og hún kemur fram í fyrirliggjandi gögnum sem koma fram í Skipulagsgáttinni.
Fyrir liggur að hér er um að ræða mikla framkvæmd, 20 metra breitt athafna og öryggissvæði er ráðstafað undir strengsettin með vinnuslóða á milli. Strengirnir munu liggja í halla á nokkrum stöðum og því augljóst að líkur eru á enn frekari röskun á nokkrum stöðum. Það er því mjög mikilvægt að framkvæmdaraðili gangi vel frá svæðinu að lokinni framkvæmd, þ.e. móti það og græði upp í samræmi við skipulagið sem fyrir liggur, sem er ræktunar– og útivistarsvæði með tilheyrandi skógrækt. Þýðing þessa svæðis til útivistar fyrir Hafnfirðinga og nágrannabyggðir er mikil og vaxandi umferð er um svæðið. Skógræktarfélagið vill leggja áherslu á góða umgengni verktaka og að leitast verði við að röskun á svæðinu verði sem minnst og að tilliti verði tekið til gesta og gangandi á svæðinu.
Skógræktarfélagið vill jafnframt með erindi þessu árétta að samkvæmt þjónustusamningi við Hafnarfjarðarbæ þá eru tré eign félagsins, fyrirséð er að fella þarf tré sem eru innan vinnusvæðisins og gerir félagið því kröfu um sanngirnisbætur fyrir felld tré.
Að lokum vill félagið fagna því að raflínur á svæðinu séu lagðar í jörð, enda um að ræða útivistarsvæði í nágrenni bæjarins. Félagið væntir jafnframt góðs samstarfs við bæjaryfirvöld og framkvæmdaraðila á meðan á framkvæmdum stendur.
Virðingarfyllst
Fyrir hönd stjórnar Skógræktarfélags Hafnarfjarðar
Sigurður Einarsson
Formaður stjórnar SH