Fundargerð stjórnar Skógræktarfélags Hafnarfjarðar haldinn í Selinu þann 20. nóvember 2023, kl 17.30.
Mætt: Sigurður Einarsson, Gyða Hauksdóttir, Magnús Gunnarsson, Hallgrímur Jónasson (ritari), Ingvar Viktorsson, Jónatan Garðarsson ásamt Steinari Björgvinssyni framkvæmdastjóra.
1. Stöðuyfirlit frá framkvæmdastjóra – starfið í vetur.
Steinar gerði grein fyrir stöðunni, segir allt ganga samkvæmt áætlun, en nokkuð um veikindi hjá starfsmönnum. Gerir ráð fyrir að tré komi í vikunni til jólatrjáasölu frá Árnesingum, Brekkugerði og fl. Salan verður opnuð sunnudaginn 3ja desember. Framkvæmdir við húsbygginguna er í biðstöðu en unnið er að því að setja upp bása sem nota má við sölu jólatrjáa.
Mikil þátttaka var í Ljósagöngunni þann 24. október, áætlað um 150 manns. Mikil ánægja var með hvernig staðið var að skipulagningu og framkvæmd, sérstakar þakkir til Steinars.
2. Umsögn um: ”Kaldárhraun og Gjárnar, Stjórnunar og verndaráætlun.” Linkir: Kaldárhraun og Gjárnar-aðgerðaáætlun (ust.is) og Kaldárhraun og Gjárnar (ust.is)
Umhverfisstofnun kynnti þann 23. október s.l. stjórnunar- og verndaráætlun fyrir Kaldárhraun og Gjárnar ásamt aðgerðaráætlun. Samstarfshópur hefur undirbúið gerð áætlunarinnar fyrir náttúruvættið Kaldárhraun og Gjárnar sem voru friðlýstar sem náttúruvætti árið 2009. Í kynningu Umhverfisstofnunar segir að megin markmið friðlýsingarinnar sé að vernda Kaldárhraun sem er eitt síðasta dæmið um heillegt óraskað helluhraun í landi Hafnarfjarðar. Lögð er áhersla á að fræðslu- og útivistargildi svæðisins sé hátt, enda svæðið vinsælt útivistarsvæði. Fram kemur að áhersla er á að sem mest sátt ríki um verndun náttúruvættisins. Frestur til að skila inn ábendingum og athugasemdum varðandi fyrirliggjandi tillögu er til 30. nóvember 2023.
Stjórnarmenn höfðu kynnt sér tillöguna að stjórnunar- og verndaráætlun og aðgerðaráætlunina sem er til þriggja ára. Full samstaða var innan stjórnar að senda inn ábendingar og athugasemdir fyrir umræddan frest, með megin áherslu á eftirfarandi:
– Í stjórnunar- og verndaráætluninni er lögð áhersla á samráð (með vísun til laga þar um), meðal annars við hagsmunaaðila á svæðinu. Skógræktarfélag Hafnarfjarðar (SH) er á lista yfir samráðsaðila, en kannast ekki við að samráð hafi átt sér stað, frétti af umræddri vinnu í fjölmiðlum. Félagið tekur undir mikilvægi þess að eiga samráð við hagsmunaaðila eins og SH.
-Friðlýsingin byggir á að vernda hraunmyndanir, því er það sérkennilegt að mörk náttúruvættisins skuli vera dregin svo frjálslega sem raun ber vitni inná landnemaspildur sem eru ætlaðar til skógræktar. Á það sérstaklega við um mörkin við Fremstahöfða, þar sem ekki er viðleitni til að fylgja hraunjaðrinum.
-Mörk náttúruvættisins við Undirhlíðar er dregin með þeim hætti að innan náttúruvættisins er skógrækt sem skólabörn úr Hafnarfirði hófu á fyrri hluta síðustu aldar. Það kemur stjórn SH á óvart ef áætlanir eru uppi um að fjarlægja árangur af því frumkvæði.
Stjórnin fagnar því að stigið sé skref í þá veru að styðja við verndun og þar með bætta umgengni á svæðinu. Félagið mun mælast til þess að landnemar sem hafa land til umráða sem liggur að náttúruvættinni gróðursetji ekki innan marka náttúruvættisins og leitist við að velja tegundir sem ekki eru ágengar.
Stjórnin telur rétt að koma þessum sjónarmiðum á framfæri við Umhverfisstofnun og mun þar vera gert í sérstöku erindi.
3. Jólasalan
Fjallað var um fyrirkomulag sölu jólatrjáa, en salan hefst þann 3ja desember og er gert ráð fyrir að megin salan verði um helgar fram að jólum. Gert ráð fyrir að stjórnarmenn taki þátt í sölunni um helgar og lá frammi blað til skráningar fyrir stjórnarmenn.
4. Önnur mál
Engin