Fundargerð stjórnar Skógræktarfélags Hafnarfjarðar haldinn í Selinu þann 19. september 2023, kl 17.30.
Mætt: Sigurður Einarsson, Gyða Hauksdóttir, Magnús Gunnarsson, Hallgrímur Jónasson (ritari), Ingvar Viktorsson, Jónatan Garðarsson, Árni Þórólfsson, ásamt Steinari Björgvinssyni framkvæmdastjóra.
1. Stöðuyfirlit frá framkvæmdarstjóra
Síðastliðinn laugardag var sjálfboðaliða gróðursetning, 20 manns mættu í afleitu veðri. Í síðustu viku mættu starfsmenn Íslandsbanka, auk skólabarna og telur framkvæmdastjóri að gróðursettar hafi verið um 900 plöntur, aðallega aspir.
Trjáræktarklúbburinn kom í heimsókn í síðustu viku.
Hannes Þór Hafsteinsson er kominn til starfa hjá félaginu og verður í 60% starfi.
Bærinn er að ganga frá áframhaldandi göngu og hjólastígnum, gera má ráð fyrir að bætur til félagsins verði um 5 millj. kr. vegna trjáa sem fella þurfti.
2. Umsögn um tillögu að Frisbee-golfvelli
Frá því stjórn félagsins hittist síðast var stjórnarmönnum gefinn kostur á í lok ágúst að skoða í fylgd fulltrúa frá Frisbee-golf sambandinu og frá nýstofnuðu Frisbígolffélagi Hafnarfjarðar hugmyndir að frisbee-golfvelli vestan (NV) í Selhöfðanum og að hluta út í Selhraunið. Stjórnin fagnar því að geta gert sér betur grein fyrir umfanginu. Umræða í stjórn bendir til þess að stjórnin telji að heppilegra sé að stærri hluti vallarins sé í hrauninu, en tillögurnar gera ráð fyrir.
Það er vilji stjórnar að fyrirhugaður fundur, sem ekki hefur tekist að koma á með Berglindi Guðmundsdóttur landslagsarkitekti hjá Hafnarfjarðarbæ og Þráni Haukssyni sem er deiliskipulagshöfundur að svæðinu fari fram áður en stjórn Skógræktarfélagsins tekur endanlega afstöðu. Stjórnin vill glöggva sig betur á hver framtíðaráform eru á svæðinu áður en tekin er afstaða til næsta skrefs.
Fram kom að hestamannafélagið Sörli hefur þegar sent umsögn.
3. Umsögn um færslu á Hamraneslínu
Hafnarfjarðarkaupstaður hefur óskað eftir umsögn félagsins um fyrirhugaða færslu á Hamraneslínu 1 og 2, sem er breyting á aðalskipulagi.
Landsnet átti gott samstarf við Skógræktarfélagið um fyrirhugaða færslu og tók tillit til ábendinga félagsins við endanlega tillögu varðandi breytingu á aðalskipulagi. Skógræktarfélagið gerir engar athugasemdir og fellst því á fyrirliggjandi breytingar.
4. Önnur mál
Gerð er tillaga um að Ljósaganga verði 24. október, en um er að ræða samstarf við Krabbameinsfélag höfuðborgarsvæðisins og Skógræktarfélag Hafnarfjarðar.