Hin árlega fuglatalning í skógum félagsins og hverfum bæjarins austan og sunnan Reykjanesbrautar, en það er eitt og sama talningarsvæðið, fór fram laugardaginn 12. janúar. Í ár sáust samtals 20 fuglategundir sem er í mesta lagi fyrir þetta svæði. Hannes Þór Hafsteinsson og Steinar Björgvinsson töldu eins og undanfarin ár. Silkitoppurnar voru allar í Setbergshverfinu þar sem þær voru að tína í sig gljámispilber. Glóbrystingurinn var í Sléttuhlíð. Gráhegrinn og keldusvínið var við Lækinn fyrir neðan Setbergshlíðina. Krossnefur og gráþrestir sáust í Höfðaskógi við Hvaleyrarvatn. Samsvarandi fuglatalningar fara fram víða um land og hafa verið stundaðar í áratugi. Náttúrufræðistofnun heldur utan um þau gögn sem aflað er í þessum vetrarfuglatalningum.
Flokkur: Fréttir 2013