Hin árlega vetrar-fuglatalning fór nýlega fram í upplandi Hafnarfjarðar. Svæðið nefnist Hafnarfjörður austan Reykjanesbrautar og inniheldur m.a. Höfðaskóg, Sléttuhlíð, Vatnshlíð, Gráhelluhraun, Ástjörn, Ásland og Setbergshverfi . Eftirfarandi tegundir fugla sáust á svæðinu: Grágæsir, stokkendur, urtendur, hrossagaukar, dvergsnípur, keldusvín, svartbakar, hvítmáfar, bjartmáfar, silfurmáfur, hettumáfar, stormmáfar, rjúpa, hrafnar, starar, skógarþrestir, svartþrestir, músarrindlar, glókollar, snjótittlingar, auðnutittlingar, krossnefir og brjósttittlingur. Alls 23 tegundir.
Ein dvergsnípa var við Lækjarbotna í Gráhelluhrauni og önnur við Ástjörn. Dvergsnípa er all algengur flækingur/vetrargestur hérlendis. Minnir á lítinn hrossagauk. Keldusvín er árviss flækingur hérlendis. Talið útdautt sem varpfugl. Brjósttittlingurinn hefur haldið sig við bækistöðvar félagsins og Þallar síðan í byrjun desember. Þetta er í fyrsta sinn sem þessi N-ameríski spörfugl sést hérlendis og reyndar í fyrsta sinn sem tegundin sést í Evrópu ef Azor-eyjar eru undanskildar. Fjöldi fuglaskoðara og fuglaljósmyndara bæði innlendir og erlendir hafa lagt leið sína í Höfðaskóg til að sjá brjósttittlinginn.
Um 20 krossnefir sáust samtals í Höfðaskógi og Sléttuhlíð. Krossnefur er nýlegur landnemi hérlendis. Hátt í 90 glókollar sáust í skógum félagsins. Glókollur er einnig frekar nýlegur landnemi en er í dag einn algengasti barrskóga-fugl landsins. Svartþrösturinn sem nam land hérlendis seinni part síðustu aldar sækir líka stöðugt í sig veðrið.
Eins og undanfarin ár voru það Hannes Þór Hafsteinsson og Steinar Björgvinsson sem töldu.