Hópur líffræðistúdenta við HÍ heimsótti félagið nýverið. Um var að ræða nema í fuglafræði-kúrs sem Gunnar Thor Hallgrímsson dýravistfræðingur kennir. Heimsóknin var hluti af fuglaskoðunarferð um Innnesin. Ekki voru þau svo heppinn að sjá brjósttittlinginn sem enn heldur sig í Höfðaskógi. Nokkur hundruð manns hafa komið gagngert á svæðið síðan fuglinn sást í byrjun desember til að freista þess að sjá þennan litla fugl. Bæði eru það innlendir fuglaskoðarar og -ljósmyndarar og erlendir. Hrímtittlingur sem hánorræn finka náskyld auðnutittling hefur einnig haldið sig undanfarið við bækistöðvar félagisins undanfarið. Reglulega er fóðrað á hlaðinu við Þöll. Svartþrestir, skógarþrestir, snjótittlingar, auðnutittlingar og starar eru reglulegir gestir. Gráþröstur kom við einn dag um daginn. Glókollar eru áberandi í skóginum en koma ekki í fóður. Einstaka músarrindill sést einnig en þeir sækja ekki í fóður. Sama má segja um krossnefi sem sjást annars lagið í skóginum. Á myndinni eru líffræðistúdentarnir ásamt Gunnari efst til vinstri. Rakel Kristjánsdóttir sem starfað hefur hjá félaginu á sumrin er efst til hægri.