Steinar Björgvinsson framkvæmdarstjóri Skógræktarfélags Hafnarfjarðar fór fyrir göngu um Hellisgerði fimmtudagskvöldið 31. júlí 2014. Gangan var hluti af menningargöngum um Hafnarfjörð í sumar sem Hafnarborg og Byggðasafn Hafnarfjarðar standa að. Þessar göngur hafa verið vel sóttar og vakið talsverða lukku.
Það mættu rúmlega eitt hundrað manns í Hellisgerði og nutu þess að hlýða á fróðleik Steinars um plöntur og trjágróður í Hellisgerði, en saga garðsins spannar níutíu ár hvorki meira né minna. Steinar er vel að sér í flórunni og sagði skilmerkilega frá og svaraði fyrirspurnum göngufólks um mismunandi efni sem tengjast gróðri og ræktun í Hellisgerði.
Hellisgerði er um margt einstakur garður og þar er til dæmis einn mesti fjöldi beykitrjáa á landinu. Meðal annarra trátegunda sem vekja athygli eru blæaspir frá Norðurlandi sem fjölga sér með rótarskotum, merkilegt tré sem kallað er Dögglingsviður á íslensku og er frá Bandaríkjunum, birkitré úr Þórsmörk, reyniviður úr Þórsmörk og Hraununum sunnan við Hafnarfjörð, gráösp frá fyrstu árum garðsins sem flutt var inn frá Danmörku og sitthvað fleira.