Þessi frásögn er úr gömlum skjölum Skógræktarfélags Hafnarfjarðar:
Einn mesti bruni sem hefur orðið í Hafnarfirði var er Flygenringshús, eða Christensenshúsið, brann í ágúst 1906. Þá brann einnig stórt geymslupakkhús er stóð bak við og annað stórt pakkhús er stóð þar sem nú er Strandgata 5. Íbúðarhúsið stóð því sem næst þar sem nú er sölubúð Kaupfélags Hafnfirðinga og þar var aftur byggt íbúðarhús. En þar sem pakkhúsið var létu þau Flygenringshjón útbúa trjá- og blómsturgarð. Það mun hafa verið vorið 1908, að þau gróðursettu þarna nokkrar reyniviðarplöntur af íslenzku bergi brotnar. Guðjón bóndi Gíslason í Lambhaga í Hraunum færði þeim plönturnar. Tók hann þær upp einhversstaðar suður í Kapelluhrauni. Bar hann þær hingað í poka og vafði ræturnar í blautan mosa. Plöntur þessar döfnuðu allvel framan af, meðan umferð um Reykjavíkurveginn var ekki mjög mikil, en nú um langan tíma hafa trén orðið fyrir þungum búsifjum af ryki götunnar. Þá hefur trjánum líka staðið fyrir þrifum tíð eigendaskipti á húsinu. Árið 1914 gróðursettu Flygenringshjónin þarna Linnetstréð, sem stóð þar í fjögur eða fimm ár.
Samkvæmt frásögn þeirra bræðra Ingólfs og Garðars Flygenring
Við þetta má bæta þeim upplýsingum að húsið sem August Theódór Flygenring Þórðarson og Þórunn Stefánsdóttir Flygenring létu byggja árið 1906 var seinna breytt í hótel og þar var Hótel Björninn til húsa allt þar til veiðafæradeild Kaupfélags Hafnfirðinga flutti í húsið. Það var rifið árið 1966 til að hægt væri að breikka Reykjavíkurveg enn frekar, en það stóð því sem næst á vestari akrein Reykjavíkurvegar mætir Strandgötu og Vesturgötu við hliðina á húsi því sem hýsir veitingastaðinn Gamla vínhúsið að Vesturgötu 4.