Árið 1904 byggði Þorsteinn Egilsen hús [Strandgata 25] það er síðar komst í eigu Einars kaupmanns Þorgilssonar. Árið 1905 kvæntist hann þriðju konu sinni Rannveigu Thordal, fædd Síverstsen. Hús þetta er talið standa í Brúarhraunslóð, en nánar tiltekið er það í lóð tveggja gamalla bæja, sem undir lok voru liðnir um 1880 og hét sá vestari Þorkellskofi, líka Björnskofi, en sá eystri hét Geirþrúðarbær. Ofarlega í þessari lóð var svo hús þetta reist. Myndaðist því allstór forgarður við húsið. Var garður þessi fyrst varinn með grjótgarði fram við Sjávargötuna, síðar Strandgötuna. Hlið var á garði þessum miðsvegar og gangstígur upp að framdyrum, er skipti garðinum í tvennt.
Árið 1905 um vorið mun frú Rannveig þegar hafa gróðursett rifsberjarunna í eystri hlutanum, en í vestari hlutanum gróðursetti hún skandinavískt reynitré, og stóð það í garðinum miðjum. Ofar í garðinum gróðursetti hún heggtré og íslenskar reyniviðarhríslur. Ekki döfnuðu tré þessi vel. Mun þar mestu um hafa valdið saltmengaður jarðvegur og svo sjávarlöður sem dreif á land upp og yfir garðinn frá Brúarhraunsvör og Brúarhraunskletti. Svo mikið er víst að skandinavíski reyniviðurinn stóð því nær alveg í stað þar til komnar voru uppfyllingar framan við Strandgötuna, nema hvað stofninn gerðist bolgildur mjög. Þegar uppfyllingin var komin, tók tréð nokkuð að vaxa. Um 1940 var íslenski reyniviðurinn dauður, en þá var skandinavíski reyniviðurinn og heggtréð flutt upp í Sléttuhlíð að sumarbústað þeirra bræðra Þorgilsar og Ólafs Einarssonar. En garðurinn sjálfur var nokkru síðar lagður undir Strandgötuna við þær breytingar er á henni voru gerðar.
Samkvæmt frásögn Þorgilsar Einarssonar
Úr sagnablöðum Skógræktarfélags Hafnarfjarðar