Á síðasta áratug nítjándu aldar fluttist hingað Gunnlaugur Briem til Hafnarfjarðar og gerðist verslunastjóri hjá Knudtzon. Hann var kvæntur konu af dönskum ættum. Hafði hún hið mesta yndi af blómarækt og trjágróðri. Þau hjón bjuggu í Bjarnahúsi Sívertsen. Eins og allir vita stendur það í túni Akurgerðis. Frú Briem lét því skipta gerðinu í þrennt. Neðst var grasflötin, næst húsunum. Þar upp af kom langur grasbekkur, ekki ýkja breiður og var þar reynitrjám plantað. Einu þessara trjáa var plantað á fæðingardegi Garðars Flygenring 1895. Þá plöntu mun Matthías Þórðarson hafa sótt og plantað, en hann var þá verslunarstjóri hér hjá Briem. Að líkindum hafa þau, hann og frú Briem, svo sett hana niður. Ofan þessa trjábekks upp í kvosinni hafði frú Briem blómabeð og vermireiti og mátti sjá þeirra merki allt fram undir 1920. Eftir að þau Briemshjón fluttust burtu var lítið hirt um þessi verk frúarinnar. Tók þá garðurinn að drabbast niður, nema eitt ár er Jes Gíslason var hér við verslun Bryde þá hugsaði hann og kona hans mjög vel um garðinn. Eftir það var hann umhirðulaus. Þau urðu afdrif þessara reynitrjáa í Akurgerði að frostaveturinn 1918 kólu þau svo að þau laufguðust ekki eftir það, en um nokkur ár mátti sjá trjástofnana grotna niður. Nú sér þess engin merki að þarna hafi verið fagur blóma- og trjágarður, vafinn umhyggju og hjartahlýju.
Samkvæmt frásögn Gísla Gunnarssonar og Garðars Flygenrings, einnig Maríu Kristjánsdóttur.
Úr sagnablöðum Skógræktarfélags Hafnarfjarðar.