Þann 17. desember 2015 var ein öld liðin frá fæðingu Ólafs Tryggja Vilhjálmssonar, eða Óli Villa eins og hann var jafnan kallaður. Hann fæddist í Illugahúsi í Hafnarfirði, sjötti af ellefu börnum Bergsteinu Bergsteinsdóttur og Vilhjálms Guðmundssonar.
Ólafur byrjaði ungur að vinna fyrir sér og var um tíma í vinnu hjá Jóhannesi Reykdal. Hann ók vörubíl í nokkur ár áður en hann gerðist leigubílstjóri. Hann stofnaði ásamt fleiri bílstjórum Nýju-bílastöðina í Hafnarfirði 1946 og var fyrsti forstjóri hennar. Fleira markvert gerðist þetta ár því hann hóf byggingu framtíðarheimilis síns í Garðahreppi á erfðafestulandi föður síns og nefndi húsið Bólstað. Ólafur kvæntist Helgu Guðmundsdóttur 1948 og eignuðust þau sex börn: Guðmund Tryggva, Vilhjálm Steinar, Maríu, Guðbjörgu, Loga og Ólaf Helga.
Ólafur var í hópi þeirra sem stofnuðu Skógræktarfélag Hafnarfjarðar haustið 1946 og tók sæti í varastjórn félagsins á stofnfundinum. Hann var kjörinn í aðalstjórn félagsins 1949 og sat þar óslitið til 1991. Ólafur varð formaður félagsins 1965 og gegndi þeirri ábyrgðarstöðu í 21 ár til 1989. Hann var útnefndur heiðursfélagi á 45 ára afmæli félagsins 1991. Ólafur átti jafnframt sæti í stjórn Skógræktarfélags Íslands frá 1973 til 1988.
Ólafur tók við formennsku í Skógræktarfélagi Hafnarfjarðar á erfiðum tíma. Tveimur árum áður kom skyndilegt páskahret í kjölfar langvarandi hlýinda sem varð til þess að fjölmörg tré af erlendum uppruna drápust. Áralangt þrotlaust ræktunarstarf fór í súginn og margir misstu trúna á því að hægt væri að rækta erlendar tegundir á Íslandi. Félagsmönnum fækkaði í kjölfar þessa áfalls og Ólafur fékk það erfiða hlutverk að byggja félagið nánast upp frá grunni. Með bjartsýnina að leiðarljósi hélt hann áfram að fegra og bæta landið studdur af traustum félögum og fjölskyldu sinni. Ólafur vann alla tíð fulla vinnu en notaði flestar frístundir sínar til að sinna ræktunarstarfinu. Hann hvatti félagsmenn sína til dáða og fékk líka ættingja og vini til að leggja hönd á plóg. Hann var sannfærður um að með því að kenna æskufólki réttu handtökin mætti efla ræktunarstarfið. Börnin og seinna barnabörnin tóku virkan þátt í áhugmáli þessa brautryðjanda og unglingar í vinnuskólanum fengu dygga handleiðslu undir –öryggri stjórn hans. Ólafur var vanur að sækja þá sem ætluðu að sinna starfinu með honum á jeppanum sem Guðmundur Þórarinsson gaf félaginu 1974. Hann hafði þann háttinn á að koma við í barkaríum bæjarins í upphafi vinnudags. Þar keypti hann vínabrauðslengjur, sítrónusafa og annað sem skipti máli. Síðan var hafist handa, trjáplöntur gróðursetta, borið á tré sem höfðu verið sett niður nokkrum árum fyrr og hlúð að viðkvæmum gróðrinum. Þegar kom að kaffitímanum voru trjáklippurnar oftar en ekki notaðar til að sneiða vínarbrauðið niður og síðan var sest niður á skjólsælum stað úti í guðsgrænni náttúrinni á meðan nestið var snætt.
Ólafur byrjaði ungur að safna trjáfræjum og var með græðireit við heimili sitt. Hann gekkst fyrir því ásamt Jóni Magnússyni frá Skuld að útbúnir voru ræktunarkassar á Beitarhúsahálsi 1976. Trjáfræjum var sáð og ræktað frá grunni og einum áratug síðar var svo komið að félagið var nánast sjálfbjarga og hægt var að gróðursetja plöntur úr gróðrastöð félagsins.
Árið 1980 var ræktunarland Skógræktarfélagsins stækkað og tækifæri gafst til að úthluta landspildum til landnema. Einstaklingar, vinahópa, félög og skólar fengu útmælda reiti til uppgræðslu og skógræktar og starfsemi félagsins tók mikinn kipp. Næstu ár fjölgaði landnemum og smám saman tók uppland bæjarins að skrýðast trjágróðri og sárin eftir margra ára uppblástur breyttust í grónar spildur sem mikill sómi er að.