Laugardaginn 5. nóvember síðastliðinn var afhjúpaður bautasteinn í landnemaspildu Hólmfríðar Finnbogadóttur og Reynis Jóhannssonar við Kaldárselsveg. Hólmfríður afhjúpaði steininn. Viðstödd voru stjórn og starfsmenn félagsins. Steininn sem er stuðlaberg gáfu hjónin Sölvi Steinarr og Björk Bjarnadóttir sem reka m.a. Sól-garð við Óseyrarbraut í Hfj. Hólmfríður hóf störf hjá félaginu árið 1980. Hún varð formaður félagsins árið 1989 og síðan framkvæmdastjóri allt til ársins 2013. Í tíð Hólmfríðar jukust umsvif félagsins mjög. Fjöldi félaga jókst mjög. Öll starfsmannaaðstaða bættist einnig til mikilla muna. Mikil áhersla var lögð á stígagerð og fjölbreytni skógarins með tilliti til trjátegunda og útivistarmöguleika.
Síðdegis sama dag var boðið til 70 ára afmælisveislu félagsins í Hafnarborg en félagið er stofnað 25. október árið 1946. Hátt í 100 manns mættu. Myrra Rós Þrastardóttir söng nokkur ljúf lög og lék undir á gítar. Jónatan Garðarsson formaður félagsins rakti síðan sögu félagsins. Þorkell Þorkelsson var kjörin heiðursfélagi og hlaut gullmerki félagsins. Magnús Jónsson frá Skuld sagði frá stofnfundi félagsins árið 1946 sem hann sat á barnsaldri en faðir hans Jón Magnússon í Skuld sat í fyrstu stjórn félagsins. Magnús færði félaginu að gjöf lampa sem farðir hans fékk í fimmtugsafmælisgföf árið 1952. Lampinn er úr birki og útskorin af Ríkarði Jónssyni.
Kristinn H. Þorsteinsson framkvæmdastjóri Garðyrkjufélags Íslands flutti afmælisbarninu kveðjur frá GÍ og færði félaginu bókargjöf. Haraldur L. Haraldsson bæjarstjóri færði félaginu kveðjur frá bæjarstjórn. Sigrún Magnúsdóttir umhverfis- og auðlindaráðherra flutti félaginu einnig árnaðaróskir. Félaginu hefur einnig hlotnast vegleg bókagjöf frá Skógræktarfélagi Garðabæjar. Félagið þakkar öllum sem komu til að gleðjast með okkur og gera daginn eftirminnilegan. Takk fyrir falleg orð, kveðjur og góðar gjafir.
Á myndinni hér fyrir ofan sést Hólmfríður við steininn í spildi sinni og Reynis sem þau hófu að rækta árið 1980 (ári trésins).