Um 20 manns mættu laugardaginn 25. apríl í skógargöngu á vegum félagsins í Gráhelluhrauni. Gangan var hluti af dagskrá "Bjartra daga". Byrjað var á því að skoða fyrsta tréið sem gróðursett var á vegum félagsins en það er birki sett niður vorið 1947. Næst var komið við í gömlu Hraunsréttinni sem er vestast í Gráhelluhrauninu. Síðan var gengið að minningarskildi þar sem getið er þeirra er sátu í fyrstu stjórn félagsins. Það voru þeir: Ingvar Gunnarsson kennari, Jón Magnússon frá Skuld, Jón Gestur Vigfússon, Gunnlaugur Kristmundsson sandgræðslustjóri og Þorvaldur Árnason skattstjóri. Komið var við í útikennslustofunni í Efri-Lækjarbotnum sem reist var í fyrra. Síðan var gengið eftir reiðgötunni í gegnum hraunið upp að Gráhellu. Gengið var eftir göngustígnum til baka en hann liggur samsíða reiðgötunni. Komið var við í Guðmundarlundi en þar er minningarskjöldur um Guðmund Þórarinsson sem starfaði hjá félaginu um miðja síðustu öld og gaf félaginu jeppabifreið sem lengi var í notkun hjá félaginu. Skoðaðar voru ýmsar tegundir barrtrjáa sem gróðursettar hafa verið í hrauninu eins og bergfura, skógarfura, fjallaþinur, evrópulerki, rauðgreni og fleira. Leiðsögumenn voru: Árni Þórólfsson skógarvörður, Jónatan Garðarsson formaður félagsins og Steinar Björgvinsson framkvæmdastjóri félagsins. Að lokum bauð félagið upp á kaffisopa í Þöll.