Laugardaginn 21. apríl síðastliðin efndi félagið til fuglaskoðunar um Höfðaskóg og við Hvaleyrarvatn. Um 25 manns mættu en gangan var hluti af dagskrá „Bjartra daga“ sem haldnir voru í Hafnarfirði dagana 18. – 22. apríl. Hannes Þór Hafsteinsson og Steinar Björgvinsson voru leiðsögumenn. Eftirtaldar fuglategundir sáust eða það heyrðist í þeim þennan dag. Starar, skógarþrestir, svartþrestir, auðnutittlingar, krossnefir, þúfutittlingar, glókollar, músarrindill, stokkendur, grágæsir, flórgoðar, sílamáfar, hrossagaukar og stelkur. Rjúpukarri sást við Hvaleyrarvatn áður en gangan hófst.
Þess má geta að steindepill sást í gær skammt frá Kjóadal. Talsvert er einnig komið að heiðlóu t.d. í Kjóadal og víðar í upplandinu. Nokkrar skúfendur og toppendur sáust á Hvaleyrarvatni síðustu helgi.
Á ljósmyndinni sjást þeir Hannes og Steinar í upphafi göngunnar. Ljósmynd: Inga Margrét Róbertsdóttir.