Um félagið

Félagið
Skógræktarfélag Hafnarfjarðar var stofnað 25. október 1946 og eru félagsmenn rúmlega 770 talsins. Félagið er með þeim stærstu á landinu og starfið er mjög blómlegt. Starfsmenn eru þrír: Steinar Björgvinsson framkvæmdarstjóri og ræktunarstjóri, Árni Þórólfsson skógarvörður og Jökull Gunnarsson. Á hverju sumri bætist fjöldi vinnufúsra ungmenna í hópinn og skila þau miklu og góðu starfi í þágu landbóta. Einnig starfa sjálfboðaliðar á vegum félagsins hvort heldur er við stjórnarstörf, útplöntun eða önnur verkefni sem þarf að sinna. Fjöldi einstaklinga, fjölskyldna, félaga og fyrirtækja hafa tekið land í fóstur og kallast einu nafni Landnemar. Starfið er kraftmikið og jafnan er boðið upp á fjölbreytta dagskrá á vegum félagsins á hverju ári.
   
Upphafið
Þegar Skógræktarfélags Íslands var stofnað 1930 voru nokkrir Hafnfirðingar á meðal stofnenda og á næstu árum bættust fleiri í hópinn. Skógræktarfélag Íslands var stofnað sem höfuðfélag skógræktarmála og ráðgefandi aðili fyrir héraðsfélög vítt og breitt um landið. Félagið var janframt hugsað sem héraðsfélag skógræktarfólks í Reykjavík og Hafnarfirði til að byrja með. Þetta fyrirkomulag þótti ekki gott til lengdar svo að ákveðið að stofna sérstök héraðsfélög í Reykjavík og Hafnarfirði. Skógræktarfélag Hafnarfjarðar var stofnað með formlegum hætti síðasta dag sumars, 25. október 1946. Stofnendur voru rúmlega 20 en fljótlega fjölgaði félagsmönnum því árið eftir var tíundi hver bæjarbúi félagi í Skógræktarfélagi Hafnarfjarðar. Félagsmönnum hefur fjölgað jafnt og þétt undanfarna áratugi, en um tíma var nýliðun næsta lítil í félaginu.
 
Fyrstu árin
Fyrsti formaður Skógræktarfélagsins var Ingvar Gunnarsson barnaskólakennari en hann var brautryðjandi í skógrækt og hóf t.a.m. ræktun í Skólalundi í Undirhlíðum árið 1930. Þeir sem skipuðu fyrstu stjórn félagsins með honum voru ötulir ræktunarmenn sem höfðu stundað trjárækt um árabil þegar félagið var stofnað.

Fyrsti reiturinn sem tekinn var til ræktunar var 7 hektara spilda í norðanverðu Gráhelluhrauni skammt ofan Lækjarbotna. Gunnlaugur Kristmundsson Sandgræðslustjóri og kennari lagði til að þessi spilda yrði fyrir valinu. Upphaflega hugmyndin var að taka til ræktunar landsvæðið ofan við Sandvík norðaustan Hvaleyrarvatns en vegna kulda og erfiðs árferðis vorið 1947 var þeirri hugmynd slegið á frest um sinn. Girðingavinnu í Gráhelluhrauni lauk vorið 1947 og 27. maí gróðursetti Ingvar formaður fyrsta birkitréð við hátíðlega athöfn. Mikill hugur var í félagsmönnum sem lögðu drjúga hönd á plóg og fyrsta sumarið voru skógarfurur, rauðgreni og birki gróðursett í reitnum, alls 2.300 trjáplöntur. Sérstakir hakar voru útbúnir til að auðvelda gróðursetningu í hinu grýtta hraunlandslagi. Margir töldu þetta frumherjastarf vera goðgá og spáðu því að ræktunin ætti eftir að misheppnast. Þrátt fyrir ýmis áföll gekk starfið vonum framar og nú er Gráhelluhraunsskógur gróskumikill og nánast alveg sjálfbær. Þorvaldur Árnason skattstjóri tók við formennskunni 1949 og var fyrsta verk hans að fá svæðið í Gráhelluhrauni stækkað um 30 hektara í áttina að Hraunsrétt. Jón Gestur Vigfússon tók við formennskunni 1954 og gegndi henni til 1958 þegar séra Garðar Þorsteinsson var kosinn formaður.

Þegar nýja ræktunarsvæðið í Gráhelluhrauni hafði verið girt var ákveðið að planta út sitkagreni og lerki í hrauninu. Skógræktarfélagið naut á þessum árum dyggrar aðstoðar nemenda og kennara Barnaskóla Hafnarfjarðar sem tóku þátt í gróðursetningunni á hverju vori, auk meðlima félagasamtaka í bænum. Fyrsta áratuginn voru alls gróðursettar um 80-90 þúsund trjáplöntur í Gráhelluhrauni. Skógarfuran fór illa af völdum furulúsar og rauðgrenið spjaraði sig ekki nógu vel. Vorkuldar 1963 tóku einnig sinn toll og varð að fella talsvert af trjám. Árið1965 var aftur hafist handa við að gróðursetja í Gráhelluhrauni og aðaláherslan lögð á birki, stafafuru og bergfuru. Voru 30 þúsund nýjar trjáplöntur gróðursettar fram til ársins 1978 og á allra síðustu árum hefur verið plantað þar út nokkrum fjölda árlega.   
 
Ræktun lands og lýðs
Girðingarefni lá ekki á lausu á upphafsárum félagsins vegna haftastefnunnar. Þetta mikilvæga mál mæddi mjög á stjórnarmönnum og girðingarefni kostaði félagið mikla fjármuni. Gráhelluhraunsgirðingin gekk fyrir og þessvegna dróst úr hömlu að girða landsvæðið norðaustan Hvaleyrarvatns sem félaginu hafði verið lofað við stofnun þess. Útland bæjarins var ekki eingöngu ætlað sem útivistar- og ræktunarsvæði því á þessum árum var það fyrst og fremst notað sem haglendi fyrir sauðfé frístundabænda í bænum.

Vorið 1957 fékk félagið formlega úthlutað 32 hektara landsvæði í hlíð Beitarhúsaháls við Hvaleyrarvatn. Þar voru nokkrar gróðurtorfur, en landið var að stærstum hluta blásið holt, stórgrýti og leirflög og gaf ekki von um mikla ræktunarmöguleika. Engu að síður var landið girt sumarið 1957 og girðingin stækkuð 1963 þegar viðbótarlandi við Húshöfða var úthlutað til félagsins. Gróðursetning hófst af krafti vorið 1958 og voru 15 þúsund trjáplöntur gróðursettar í hlíðum Beitarhúsahálsins fyrsta sumarið. Félagsmenn í Rótarýklúbbi Hafnarfjaðrar áttu þarna mörg handverkin og einnig félagar í Góðtemplarareglunni og fleiri félagasamtökum í bænum. Stjórnarmenn Skógræktarfélagsins og almennir félagar komu einnig að ræktunarstarfinu í stórum stíl. Einna mest munaði um ómældar vinnustundir Guðmundar Þórarinssonar og Ólafs Vilhjálmssonar, að öðrum ólöstuðum.

Árið 1959 fékk Skógræktarfélagið leyfi til að girða af 56 hektara land umhverfis Stóra-Skógarhvamm í Undirhlíðum. Næstu fimm árin önnuðust piltar í vinnuskólanum í Krýsuvík gróðursetningu undir stjórn Hauks Helgasonar. Félagið tók einnig við skóginum í Skólalundi og var Undirhlíðagirðingin stækkuð 1961 þegar Kúadalur og hluti Kaldárhnúka syðri bættust við ræktunarsvæðið. Sama ár var ákveðið að dreifa lúpínufræjum í örfoka land við Hvaleyrarvatn.
 
Uppeldisreitir
Helstu útgjöld Skógræktarfélagsins voru lengst af fólgin í kaupum á skógarplöntum til gróðursetningar, sem gekk stundum illa að útvega. Þetta kom niður á starfinu en oft hljóp Jón Magnússon í Skuld undir bagga og bjargaði félaginu um plöntur til gróðursetningar. Sumarið 1973 gaf hann félaginu fjölda birkiplatna úr gróðrastöð sinni og hvatti til þess að félagið kæmi sér upp ræktunarstöð. Vorið 1975 var fyrsta skrefið tekið þegar félagið kom upp græðireitum á Beitarhúsahálsi. Félagsmenn söfnuðu fræi víða um land, og reyndar út um allan heim, og á vorin var sáning trjáfræja árviss viðburður. Á ýmsu gekk til að byrja með en tíu árum eftir að upphafsskrefin voru tekin var framleiðsla gróðrastöðvarinnar komin á það stig að félagið var sjálfbjarga um nær allar plöntur sem notaðar voru á ræktunarsvæðum þess. Þetta var fyrsti vísirinn að gróðrastöðinni sem nú er rekin sem sjálfstætt fyrirtæki og nefnist Gróðrastöðin Þöll.  

Skógræktarfélagið fékk úthlutað viðbótarlandi 1979 sem ætlunin var að reita niður í landnemaspildur. Auglýst var eftir einstaklingum og fyrirtækjum sem vildu taka land í fóstur. Hugmyndin hlaut góðan hljómgrunn og vorið 1980 fengu 24 einstaklingar og fjölskyldur þeirra, ásamt 11 fyrirtækjum úthlutað landnemareitum í sunnanverðu Gráhelluhrauni og hrauninu vestur af Sléttuhlíð. Félagið hóf sama ár útplöntun á furutrjám í Selhöfða og þegar sorphaugunum við Hamranes var lokað 1987 stækkaði ræktunarsvæðið út í Selhraun vestan Hvaleyrarvatns.

Þegar útlönd Hafnarfjarðar og Garðabæjar höfðu verið girt 1979 lauk lausagöngu búfjár í bæjarlandinu. Þetta leiddi til þess að þeirri hugmynd var hreyft af fullri alvöru að taka niður allar girðingar á ræktunarsvæðum félagsins. Ekki var einhugur um þetta mál því margir töldu fulla ástæðu til að viðhalda girðingum til að verja skógræktarlöndin fyrir ágangi um ókomna tíð. Það leið því nokkur tími áður en hafist var handa við að fella girðingarnar og fjarlægja þær en nú eru öll skógarsvæði félagsins opin og ógirt.   
 
Landnemar
Vorið 1989 tók Hólmfríður Finnbogadóttir við formennsku í Skógræktarfélaginu. Hún hafði verið í stjórn þess í tæpan áratug og var fyrsta konan til að gegna formennsku í félaginu. Hólmfríður tók við framkvæmdastjórn félagsins ári síðar og hefur gegnt því starfi til þessa dags. Hólmfríður Árnadóttir var formaður félagsins 1999-2002 en þá tók Níels Árni Lund við og gegndi formennskunni í 9 ár. Jónatan Garðarsson tók við formennskunni vorið 2009.

Athygli vekur hversu þaulsetnir stjórnarmenn hafa verið í gegnum tíðina og hve félagskjarninn hefur verið traustur og látið mikið til sín taka. Þetta er ekki sjálfgefið nú á tímum þegar mörg félög eiga í erfiðleikum með að manna starfið.  

Sumarið 1980 tók Skógræktarfélagið við Höfðalandi og úthlutaði því í áföngum til fjölda landnema. Fleiri svæði fylgdu með í þessum áfanga, þ.á.m. Seldalur sem er hluti Landgræðsluskóga átaks sem efnt var til þegar Skógræktarfélag Íslands varð sextugt 1990. Seldalur þótti ekki sérlega ákjósanlegur ræktunarreitur því hann var þakinn gróðursnauðum jökulleir sem breyta þurfti í ræktanlegt land. Lúpínufræjum var sáð í dalinn og rofabörð stungin niður áður en 50 þúsund trjáplöntur voru gróðursettar þar. Þetta rúmlega 20 hektara svæði hefur tekið verulegum stakkaskiptum frá því að fyrstu trén voru gróðursett þar.  
 
Félagsaðstaðan og gróðurhúsin
Framan af átti félagið ekkert almennilegt húsnæði, aðeins lítinn verkfæraskúr í Gráhelluhrauni og annan í Höfðaskógi. Um tíma hafði félagið vinnuskúr til afnota og þar var fundað þó aðstæður væru mjög þröngar. Vorið 1990 var bætt úr aðstöðuleysinu þegar 40 fermetra sumarhúsi var komið fyrir norðan Húshöfða. Húsið var allt í senn starfsmannahús, skrifstofa, fundarstaður og móttökuhús félagsins. Húsið fékk nafnið Höfði og var til mikilla bóta eftir langvarandi aðstöðulesi. Samt sem áður vantaði enn upp á aðstöðuna því verkfæri og annar búnaður var geymdur í litlum skúr. Hagur félagsins vænkaðist heldur betur sumarið 2003 þegar því áskotnaðist gömul kennslustofa. Húsið var flutt í Höfðaskóg, þar sem útbúin var aðstaða fyrir starfsmenn og búnað, ásamt skrifstofu félagsins. Þetta hús hlaut nafnið Selið. Til viðbótar hefur félgið til afnota nokkur köld gróðurhús á ræktunarreitnum og eitt nýlegt upphitað hús sem hefur breytt miklu varðandi starfsemina.