Skólalundur

Kúadalur og Litli-Skógarhvammur í Undirhlíðum tilheyrðu beitilandi Garðakirkju og leiguliða kirkjunnar um aldir, en landið komst í eigu Hafnarfjarðarkaupstaðar 1912. Haglendið var illa farið af hrístöku, beit og uppblæstri árið 1926 þegar skógræktarstjóri vakti athygli bæjarstjórnar Hafnarfjarðar á að tímabært væri að girða nokkra skógi vaxna runna í Undirhlíðum og friða skóglendið. Málið fór fyrir girðinganefnd bæjarins sem ákvað að láta girða gróskumesta  skógarhvamminn.

Birkið og víðitrén áttu því í vök að verjast þegar Ingvar Gunnarsson kennari plantaði fyrstu barrtrjánum ofarlega í Litla-Skógarhvammi 1930. Framtakið leiddi til þess að nemendur Barnaskóla Hafnarfjarðar hófu reglulega gróðursetningu í Skólalundi undir stjórn Ingvars 1934. Þeir aðilar sem áttu að annast viðhald allra girðinga í upplandinu hirtu lítt um að halda skógræktargirðingunni í horfinu. Þegar Skógræktarfélag Hafnarfjarðar tók við Undirhlíðareitnum var fyrsta verkið að girða Skólalund. Girðingin var stækkuð 1961 norðaustur fyrir Kúadal að Syðri-Kaldárhnúkum, lúpínu var sáð í örfoka landið og hafist handa við að klæða það skógi. Sitkagrenitrén í Skólalundi eru þau hæstu í Undirhlíðum. Aðrar tegundir dafna ágætlega, s.s. sitkabastarður, rauðgreni, blágreni, stafafura, fjallafura, bergfura og fjallaþinur auk birki- og víðikjarrs. Kúadalsgirðingin var fjarlægð 2005 og Útivistarskógur í Undirhlíðum opnaður í ágúst 2006 í tilefni 60 ára afmælis Skógræktarfélags Hafnarfjarðar.


Á hverju sumri er nýjum tegundum plantað út í Skólalundi og svæðið umhverfis til að auka tegundarvalið.