Seldalur

Seldalur er suðvestur af Hvaleyrarvatni og umlukinn hálsum og höfðum. Selhöfði er norðan við dalinn og Stórhöfði suðvestan hans. Þar á milli er annarsvegar Seldalsháls og hinsvegar ónefndur háls sem tengir saman Stórhöfða og Langholt. Dalurinn var mjög illa farinn þegar Skógræktarfélagið tók hann til ræktunar árið 1990. Uppgræðsla dalsins var hluti af Landgræðsluskóga átaki sem hleypt var af stokkunum í tilefni af 60 ára afmæli Skógræktarfélags Íslands þeta sama ár. Seldalur leit ekkert sérstaklega vel út þegar ræktunarstarfið hófst. Á vetrum safnaðist vatn í dalbotninn og leirkenndur jarðvegurinn var mjög rokgjarn á sumrin í mestu þurrkum. Meðlimir Skotveiðifélags Hafnarfjarðar höfðu verið með aðstöðu til skotæfinga í dalnum um frá 1968 til 1988 og þar var mikið magn af brotnum leirdúfum, högglum og örðu sem minnti á veru félagsmanna þar.

Fyrsta verkið fólst í að hreinsa dalinn, stinga niður rofaborð, bera áburð, grasfræ og lúpínufræ í flögin og freista þess að hefta uppblástur og fok. Síðan var hafist handa við að gróðursetja harðgerðar trjátegundir eins og birki, víði, furu, greni og alaskaösp. Alls voru gróðursettar 50 þúsund trjáplöntur fyrsta kastið í þenna rúmlega 20 hektara dal sem var varla árennilegur sem ræktunarsvæði. Mikil vinna hefur verið lögð í búa svo um að trjágróðurinn fái sem best skilyrði til að vaxa og hefur landið hreinlega tekið stakkaskiptum. Það voru því mikil vonbrigði þegar eldur var borinn að þurrum gróðrinum í dalnum seinnihluta marsmánaðar 2010. Kveikt var í rusli sem þar var skilið eftir og líka borinn eldur að þurrum gróðuri á fleiri en einum stað. Þetta orsakaði það að 4-5 hektarar, eða fjórðungur svæðisins, fuðraði upp á skömmum tíma. Mikilvægt verður að planta aftur út í brunasvæðið eins fljótt og auðið er núna í sumar því græða verður dalinn upp áður en uppblástur hefst þar á nýjan leik.