Rósasafn

Rósasafnið í Höfðaskógi er samstarfsverkefni Rósaklúbbs Garðyrkjufélags Íslands og Skógræktarfélags Hafnarfjarðar. Rósasafnið var formlega vígt á sumarsólstöðum árið 2005 af Jóhanni Pálssyni fyrrverandi garðyrkjustjóra Reykjavíkurborgar og rósaræktanda ásamt Samsoni B. Harðarsyni formanni Rósaklúbbsins. Guðni Ágústsson, þáverandi landbúnaðarráðherra, gróðursetti svo fyrstu „Jóhannsrósina“ árið eftir og opnaði rafrænan gagnagrunn um harðgerðar rósir sem klúbburinn vann.
Sjá: http://gardurinn.is/default.asp?sid_id=26137&tre_rod=016&tId=1&qsr

Rósasafnið kallast í daglegu tali „Rósagarðurinn í Höfðaskógi“ þó ekki sé um eiginlegan garð að ræða. Rósirnar eru gróðursettar meðfram stígum sem liggja um svæðið og þurfa að standast samkeppni við annan gróður eins og lúpínu og grös.

Vel á annað hundrað tegundir og yrki af rósum eru í safninu. Yfirleitt hafa verið settar niður 3 plöntur af hverri tegund/yrki saman í þyrpingu. Rósasafnið er staðsett í suður og vesturhlíðum Húshöfða í Höfðaskógi við Hvaleyrarvatn.

Tilgangurinn með þessari rósaræktun er að kanna lifun og þrif mismunandi tegunda og yrkja rósa við fremur erfið skilyrði. Þarna gefst kjörið tækifæri að kynnast harðgerðum rósum sem rækta má í görðum og við sumarhús án mikillar umönnunar. Ekki hefur enn verið gengið endanlega frá merkingum í safninu.

Til að komast í Rósasafnið er best að ganga svokallaðan Værðarstíg. Sé komið á bíl er ekið framhjá  bækistöðvum Skógræktarfélags Hafnarfjarðar og Þallar við Kaldárselsveg aðeins nokkra metra áfram og síðan beygt til hægri. Þá er komið inn á bílastæði við upphaf Værðarstígs. Værðarstígur liggur í suður frá bílastæðinu og upp Húshöfðann. Þegar komið er í Værðarhvamm upp á höfðanum blasir rósasafnið við.