Ræða framkvæmdastjóra SH árið 2012

Fundarstjóri, kæru félagar og vinir

Eftir tiltölulega mildan vetur voraði seint og illa. Var því gróður seinni ferðinni en oft áður. Segja má að ekki hafi farið að hlýna að ráði fyrr en í lok júní. Eftir það var sumarið all hlýtt. Þrátt fyrir þetta bar lítið á kali og trjávöxtur var almennt góður á árinu. Stormar síðsumars og í haust tóku með sér eitthvað af trjátoppum og felldu einhver víðitré en það var ekkert alvarlegt. Meindýr og sjúkdómar voru ekki sérstaklega áberandi í skógum félagsins á síðastliðnu ári. Asparglytta var þó áberandi sums staðar en asparglytta sem er bjöllutegund er nýlegur landnemi hér og getur valdið tjóni á víði og ösp. Fræþroski var í meðallagi hér suðvestanlands en lítið bar á grenikönglum í haust. Ekki var sumarið eins þurrt og undanfarin ár. Var því gróðursetning ekki eins miklum vandkvæðum bundin eins og síðastliðin ár. Haustið var all úrkomusamt og haustlitir í meðallagi góðir.

Starfsemi félagsins var fjölbreytt á síðastliðnu ári. Ég mun nú skýra frá því helsta.

Aðalfundur félagsins fór fram 29. mars hér í Hafnarborg. Að loknum venjulegum aðalfundarstörfum flutti Steinar Björgvinsson ræktunarstjóri Þallar erindi um fuglalíf í skógum og heimilisgörðum.

Félag eldri borgara í Hafnarfirði var með handverkssýningu í Selinu 14. maí sem var vel sótt.

Hin árlega fuglaskoðunarferð félagsins í Höfðaskógi fór svo fram 4. júní í tengslum við Bæjarhátíðina „Bjarta daga“ sem stóðu yfir dagana 31. maí – 4. júní.

8. júní hittust félagar í Rósaklúbbnum í Rósasafninu í Höfðaskógi og hlúðu að rósunum í safninu.

Í Tilefni Alþjóðlegs árs skóga í fyrra og 65 ára afmælis Skógræktarfélags Hafnarfjarðar voru skógræktarsvæði félagsins kynnt sérstaklega með skógargöngum.

23. júní var kvöldganga á Jónsmessunótt um Höfðaskóg undir fararstjórn Jónatans Garðarssonar formanns félagsins.

14. júlí var gengið frá Kaldárseli inn í Skólalund í Undirhlíðum þar sem Jónatan var einnig fararstjóri.

20. ágúst var gengið frá Vatnsskarðsnámum inn í Stóra-Skógarhvamm í Undirhlíðum undir leiðsögn Péturs Sigurðssonar.

29. júní var Værðarlundur í Höfðaskógi vígður. Værðarlundur er verkefni sem unnið var að frumkvæði Lionsklúbbsins Ásbjarnar með styrk úr minningarsjóði Gísla S. Geirssonar sem lést langt fyrir aldur fram árið 1993 en hann var félagi í Ásbirni. Um er að ræða nýtt bílastæði við Kaldárselsveg skammt ofan við Þöll ásamt veglegum göngustíg frá bílastæðinu upp á Húshöfðann þar sem við tekur „Værðarhvammur“, fallegt dvalarsvæði með óborganlegu útsýni yfir Hvaleyrarvatn, skóginn, höfðana og hraunin. Nokkrir áningarstaðir eru á leiðinni í Værðarhvamm. Á hverjum þeirra er erindi úr ljóði Jóhanns Guðna Reynissonar sem hann orti sérstaklega að þessu tilefni og ber heitið „Værðarstundir“.

13. ágúst var svo hinn árlegi skógar- og útivistardagur fjölskyldunnar haldinn hátíðlegur í blíðskaparveðri. Séra Gunnþór Ingason hóf dagskrána á helgistund sem hann útfærði á sinn persónulega hátt. Íshestar og hestamannafélagið Sörli leiddu hesta undir börnum og boðið var upp á gönguferð með leiðsögn. Heitt var í kolunum á hlaðinu við Selið og skógargetraun í boði fyrir yngstu kynslóðina. Þórður Marteinsson skemmti svo gestum með dillandi harmonikkuleik.

Laugardaginn 17. september var efnt til sjálfboðaliða-gróðursetningardags. Um 25 manns mættu og gróðursettu 1.300 hálfstálpaðar trjáplöntur af ýmsum tegundum í Vatnshlíðina til minningar um Hjálmar R. Bárðarson og eiginkonu hans Else S. Bárðarson. Verkefni þetta er sérstaklega styrkt af minningarsjóði um þau hjón sem Landgræðslusjóður hefur umsjón með. Vinnu við minningarlund um þau heiðurshjón er ekki lokið og má geta þess að í vetur hefur verið unnið að gerð dvalarsvæðis og göngustíga í Vatnshlíð og varphólma í Hvaleyrarvatni sem tengist verkefni þessu en Hjálmar var mikill áhugamaður um landgræðslu, skógrækt og fugla.

Þriðjudagskvöldið 1. október efndi Krabbameinsfélag Hafnarfjarðar til kvöldgöngu um Höfðaskóg og upp í Værðarhvamm. Mætti göngufólk með vasaljós í skóginn til að lýsa sér leiðina. Jóhann Guðni las upp ljóð sitt, Værðarstundir, á áningarstöðum á leiðinni og Magnús Gunnarsson formaður Skógræktarfélags Íslands sagði frá tilurð Værðar-verkefnisins. Þegar komið var niður í Systkinalund sagði Steinar frá náttstað fuglanna þar.

Jólatrjáa- og skreytingasala félagsins fór fram í desember eins og endranær í bækistöðvum félagsins við Kaldárselsveg. Boðið var upp á íslensk jólatré, greinar, köngla og ýmiskonar skreytingar úr skógarefni. Boðið var upp á heitt súkkulaði, kex og smákökur í kaupbæti í Selinu. Vel á annað þúsund manns heimsóttu félagið meðan á jólatrjáasölunni stóð. Fjöldi sjálfboðaliða hjálpaði til við jólatrjáasöluna eins og svo oft áður og er félagið þeim sérstaklega þakklátt.

Fjöldi gesta heimsótti félagið á árinu til að kynna sér starfsemi þess og til að njóta leiðsagnar starfs- og stjórnarmanna um skóglendi félagsins. Nemendur Landgræðsluskóla Sameinuðu Þjóðanna heimsóttu félagið í apríl ásamt leiðbeinendum sínum. Voru þetta aðilar frá Eþjópíu, Gana, Mongólíu, Níger og Úganda . Starfsfólk Grasagarðs Reykjavíkur kom í heimsókn í maí. Nemendur, foreldrar og kennarar Waldorfskólans Sólstafa heimsóttu félagið á vormánuðum, starfsfólk útibús Landsbanka Íslands í Hafnarfirði komu í heimsókn 1. júní, Gönguhópur félags eldri borgara í Hafnarfirði kom í heimsókn 11. júlí og fékk leiðsögn um skóginn. Gönguhópur íbúa Herjólfsgötu 36-40 kom í heimsókn 19. júlí og fékk leiðsögn um Trjásafnið. Meðlimir Náttúruskóla Reykjavíkur heimsóttu svo félagið í nóvember.

Aðalfundur Vinabæjarfélagsins Cuxhaven-Hafnarfjörður var haldinn í Selinu 8. nóvember síðastliðin og þann 26. nóvember heimsóttu svo 11 Cuxhaven-búar félagið í tengslum við afhendingu vinabæjartrésins ásamt stjórnarmönnum í Vinarbæjarfélaginu hér heima og þáðu veitingar í Selinu.

Leikskólinn Norðurberg hélt uppteknum hætti og kom með nemendur sína reglulega í heimsókn í skóginn frá hausti og fram á vor.

Nemendur Lækjarskóla, Hraunvallaskóla, Öldutúnsskóla og Áslandsskóla fóru á vordögum til að hlúa að gróðri í spildum sínum og til að gróðursetja. Nemendur úr leikskólanum Hvammi kíktu einnig í heimsókn í byrjun júní og fengu leiðsögn um skóginn. Leikskólinn Kató kíkti í heimsókn í nóvember og notfærði sér aðstöðuna í útikennslustofunni í Höfðaskógi.

Nemendur og kennarar úr leikskólunum Norðurberg, Stekkjarás, Hlíðarberg og Hvammi komu fyrir jólin og sóttu sér tré í skóginn og tóku lagið fyrir starfsmenn félagsins ásamt Hurðarskelli og þáðu veitingar í Selinu. Nemendur og kennarar frá Fjölgreinadeild Lækjarskóla, Setbergsskóla og Öldutúnsskóla komu einnig í heimsókn fyrir jólin og sóttu sér jólatré og þáðu kakósopa.

Félagar í Rótarýklúbbi Hafnarfjarðar, Lionsklúbbi Hafnarfjarðar og Kiwanisklúbbnum Eldborgu komu á árinu til að hlúa að gróðri og gróðursetja í sínar landnemaspildur.

Starfsmenn Actavis og Gámaþjónustunnar komu og unnu í sínum landnemaspildum m.a. við gróðursetningu.

Fuglaskoðarar og fuglaljósmyndarar voru duglegir að heimsækja skóga félagsins á árinu enda sáust nokkrar sjaldséðar tegundir fugla á svæðinu eins og brúnheiðir, rindilþvari, hettusöngvari, glóbrystingur og fleiri. Glókollar, svartþrestir og trúlega krossnefir verpa í skógum félagsins en allt eru þetta nýbúar í fuglafánu landsins. Lengi hefur það tíðkast að fóðra fuglana við bækistöðvar félagsins á alls kyns fóðri og matarafgöngum. Upplandið var gert að sérstöku fuglatalningarsvæði fyrir 10 árum síðan og hefur verið talið um áramótin árlega síðan af Hannesi Þór Hafsteinssyni og félögum. Alls hafa sést um 30 fuglategundir í þessum svokölluðu jólatalningum í upplandinu. Því má segja að Höfðaskógur og nágrenni sé komið á kortið sem áhugaverður staður til fuglaskoðunar. 

Samstarf hófst á árinu við ferðaþjónustufyrirtækið „Salty Tours“ um svokallaðar „gróðursetningarferðir“ fyrir erlenda ferðamenn. Um er að ræða ferðapakka um höfuðborgarsvæðið og Reykjanes þar sem ferðamennirnir geta m.a. valið á milli  5 mismunandi tegunda trjáplantna í Þöll sem þeir síðan gróðursetja í sérstakan reit í Vatnshlíðinni við Hvaleyrarvatn. Annað ferðaþjónustufyrirtæki hefur sýnt áhuga á svipuðu samstarfi.

Starfsmenn félagsins sóttu nokkur námskeið og ráðstefnur á árinu eins og t.d. námskeið um markaðsetningu á netinu og um ræktun berjarunna og ávaxtatrjáa. Starfsmenn félagsins sóttu fulltrúafund Skógræktarfélags Íslands sem haldinn var í Mosfellsbæ í febrúar og fagráðstefnu skógræktar í Reykjanesi við Ísafjarðardjúp í sama mánuði. Einnig sóttu þeir ráðstefnu um nýjungar í gróðurvali á Norðurslóðum og ráðstefnuna „Heimsins græna gull“ í Hörpu í tilefni alþjóðlegs árs skóga. 

Steinar flutti erindi á fulltrúafundi Skógræktarfélags Íslands og í Listaháskólanum um notkun og markaðssetningu á skógarefni til skreytinga.

Eins og svo mörg undanfarin ár var félagið svo heppið síðastliðið sumar að fá að njóta starfskrafta ungmenna sem kostuð eru af Landsvirkjun en kjörorð þessa verkefnis eru „Margar hendur vinna létt verk“. Þegar mest var störfuðu um 23 ungmenni hjá félaginu í gegnum Landsvirkjun á aldrinum 16-20 ára.

18 unglingar á aldrinum 14-16 ára störfuðu hjá félaginu í sumar í gegnum Vinnuskóla Hafnarfjarðar. Auk þess naut félagið starfskrafta 7 ungmenna á aldrinum 17 – 22 ára í gegnum atvinnuátaksverkefni Skógræktarfélags Íslands.

Oft var því þröng á þingi í Selinu á matmálstímum þegar mest var. Allt fór þó vel fram með góðri skipulagningu og tillitssemi allra starfsmanna.

Ég vil fyrir hönd félagsins þakka öllum þessum ungmennum sérstaklega fyrir vel unnin störf. Án þeirra gætum við ekki unnið öll þau verk sem til falla í skógum félagsins hvort sem það tengist hreinsun, stígagerð, gróðursetningu eða öðru. 

Félagið vill ennfremur þakka Hafnarfjarðarbæ, Landsvirkjun og Skógræktarfélagi Íslands samstarfið á árinu.

Ótölulegur fjöldi fólks heimsækir skóga félagsins á hverju ári. Ekki hefur farið fram rannsókn á fjölda gesta en hann hleypur örugglega á þúsundum. Greinilegt er að fjöldi gesta hefur aukist á liðnum árum. Fólk heimsækir orðið skóginn árið um kring. Sumir koma nánast daglega sér til heilsubótar og upplyftingar. Gildi svæðisins sem útivistarparadísar í næsta nágrenni byggðar hefur því tvímælalaust aukist. Aukinni umferð fólks um upplandið fylgir óhjákvæmilega aukin umirða svæðanna.

Dagskrá félagsins í ár liggur nú þegar fyrir og hljóðar hún þannig:

  • Laugardaginn 19. maí munu eldri borgarar verða með handverkssýningu á tálguðum og útskornum munum í Selinu.
  • Laugardaginn 2. júní verður Fuglaskoðun í Höfðaskógi í tengslum við bæjarhátíðina „Bjarta daga“.
  • Fimmtudaginn 21. júní verður gengið um landgræðsluskóginn í Seldal.
  • Laugardaginn 14. júlí verður boðið upp á göngu um Trjásafnið og Rósasafnið í Höfðaskógi.
  • Laugardaginn 18. ágúst verður svo hinn árlegi Skógar- og útivistardagur fjölskyldunnar haldinn hátíðlegur.
  • Laugardaginn 15. september verður Gróðursetningardagur sjálfboðaliða í Vatnshlíð í minningarreit um hjónin Hjálmar R. Bárðarson og Else S. Bárðarson.
  • Laugardagsmorguninn 6. október verður boðið upp á göngu um Hellisgerði og nágrenni og hugað að merkum trjám í bænum.
  • Jólatrjáa- og skreytingasala félagsins fer svo fram í Selinu við í desember eins og venjulega.

Fararstjórar verða stjórnar- og starfsmenn Skógræktarfélags Hafnarfjarðar

Auk þessa verður Rósaklúbburinn með hreinsunardag í Rósasafninu í sumar en Norræn Rósahelgi fer í fyrsta skipti fram hérlendis helgina 27. – 29. júlí. Hluti af dagskrá helgarinnar verður að heimsækja Rósasafnið í Höfðaskógi sem fagnar 7 ára afmæli í ár.

Viðburðir á vegum félagsins verða nú auglýstir á heimsíðu félagsins „skoghf.is“ sem verður formlega opnuð hér á eftir en einnig verða viðburðir auglýstir í Fjarðarpóstinum, á heimasíðu Skógræktarfélags Íslands og heimsíðu Garðyrkjufélags Íslands.

Þar sem félagi okkar Níels Árni Lund hefur óskað eftir því að ganga úr stjórn langar mig að þakka honum sérstaklega fyrir frábært samstarf og samveru á liðnum árum.

Ágætu fundarmenn!

Ég vil þakka það traust sem mér hefur verið sýnt undanfarin ár. Ég vil færa samstarfsfólki mínu hjartans þakkir. Öllum sjálfboðaliðum, stjórn, bókara, bæjarstjórn, bæjarstarfsmönnum, garðyrkjustjóra og öðrum samstarfsaðilum vil ég þakka gott og farsælt samstarf.

Mig langar í lokin að fara með ljóð Jóhanns Guðna Reynissonar, Værðarstundir, sem hann orti sérstaklega vegna vígslu Værðarhvamms í sumar eins og fyrr greinir:

I
Við upphaf göngu þinnar
úr gæfulindum streymir.
Og undir verndarvængjum
þú væntingarnar geymir.
Þá blómgast vor og angar
og værðarstundir langar
Þig vísdómsorðin dreymir.

II
Í lífsins værðarlundi
þú leitar til að skilja.
Magnaður í raunum
Er máttur afls og vilja.
Unaðsgrænar grundir
og gullnar sælustundir
Gráma dagsins hylja.

III
Við ferðalok þú hvílist
í hvelfdum kyrrðarboga
og veist að eilífð alla
mun ævisól þín loga.
Þú lítur farna vegu
í lífi yndislegu
við lygna himinsvoga.

Guð blessi ykkur.