Ræða formanns á aðalfundi Mars 2012

Aðalfundur Skógræktarfélags Hafnarfjarðar, 7. mars 2012.

Fundarstjóri - Góðir félagar og gestir!

Samkvæmt venju vil ég byrja á að minnast látinna félaga. Frá síðasta aðalfundi félagsins sem haldinn var í mars á síðasta ári, hafa 5 félagsmenn fallið frá. Þessir ágætu félagar okkar hétu: Guðlaug Sigurðardóttir, Guðrún Hjörleifsdóttir, Guðrún Ingvarsdóttir, Hrund Helgadóttir og Þorvarður Magnússon.

Vil ég biðja ykkur um að rísa úr sætum og votta þessum ágætu félögum okkar virðingu.

Takk fyrir.

Starf Skógræktarfélags Hafnarfjarðar var að mestu með hefðbundnum hætti árið 2011. Þrír fastráðnir starfsmenn sinntu helstu verkefnum á starfsárinu, eins og verið hefur. Hólmfríður Finnbogadóttir er framkvæmdastjóri félagsins, Steinar Björgvinsson er ræktunarstjóri og stjórnandi Gróðrastöðvarinnar Þallar og Árni Þórólfsson er skógarvörður félagsins.

Allur rekstur hefur hvílt á herðum fastafólksins sem hefur séð um að skipuleggja starfsemina og stjórna þeim verkefnum sem vinnuhópar ungmenna sinntu á liðnu sumri. Annar hópurinn var á vegum Vinnuskóla Hafnarfjarðar og hinn hópurinn var á vegum verkefnisins Margar hendur vinna létt verk sem Landsvirkjun kostar að öllu leyti. Þessir tveir ungmennahópar skiluðu miklu og góðu verki í sumar, önnuðust gróðursetningu, grisjun, slátt, stígagerð og viðhaldi á stígum og gróðursvæðum. Jafnframt tóku sjálfboðaliðar úr röðum félagsmanna að sér hin og þessi verkefni, enda byggir félagið á grasrótar hugsuninni og metur það mikils þegar félagsmenn bjóðast til að taka að sér ákveðna verkþætti sem starfsmenn félagsins komast ekki yfir að sinna.

Stjórn Skógræktarfélags Hafnarfjarðar hélt reglubundna stjórnarfundi sína í Selinu í Höfðaskógi eins og jafnan en einnig mættu einstakir sjórnarmenn og starfsmenn á vinnufundi og fyrirlestra víða um landið. Samskipti við annað skógræktarfólk skiptir miklu máli. Mikilvægt er að fylgjast með því sem er að gerast í skógræktarmálum hér og þar um landið, fylgjast með nýjustu rannsóknum og upplýsingum og svo er afar gagnlegt að geta rætt málin við þá sem sinna samskonar verkefnum annarsstaðar á landinu.

Nokkur undanfarin ár hefur verið unnið að því að fara í gegnum alla eldri samninga milli Skógræktarfélags Hafnarfjarðar og Hafnarfjarðarbæjar, með það fyrir augum að draga efni þeirra saman í einn samning. Þessi vinna hefur gengið ágætlega þó hægt hafi miðað, enda þurfti að fara vel yfir málin og ganga þannig frá hlutunum að allir þættir samninganna rúmuðust í einu skjali. Þegar samningurinn lá fyrir var hann tekin til afgreiðslu í stjórn Skógræktarfélagsins og síðan lagður fyrir tilheyrandi nefndir á vegum Hafnarfjarðarbæjar, þar næst bæjarráð og að lokum bæjarstjórn Hafnarfjarðar. Þegar þessu öllu var lokið var komið fram í miðjan apríl 2011. Samningurinn var síðan undirritaður með formlegum hætti í Ráðhúsi bæjarins við Strandgötu þann 18. apríl 2011. Stjórn Skógræktarfélagsins færir öllum sem að þessari samningagerð komu bestu þakkir fyrir þeirra framlag, en einkum og sér í lagi núverandi og fyrrverandi bæjarstjóra og öðrum kjörnum fulltrúum í bæjarstjórn Hafnarfjarðar.   

Skógræktarfélagið tók þátt í Atvinnuátaksverkefni síðasta sumar í samvinnu við Skógræktarfélag Íslands og Hafnarfjarðarbæ. Stjórn félagsins sendi Umhverfisráðuneytinu umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum um náttúruvernd nr. 44/1999 þar sem ýmis ákvæði frumvarpsins snerta skógrækt og landgræðslu með beinum hætti. Athugasemdir og umsagnir bárust frá mörgum aðilum, félögum og einstaklingum, sem leiddi til þess að ráðherra ákvað að skoða málið betur áður en frumvarpið verður lagt fram á Alþingi.  

Skógræktarfélagið fékk styrk úr Pokasjóði í sumarbyrjun til að hefja framkvæmdir við útikennslustofu og áningarstað í Gráhelluhrauni. Byrjað er að undirbúa verkið í skjólgóðum hvammi með grisjun en síðan er ætlunin að koma þar fyrir þaki úr skógarviði til að verjast regni. Að auki verða útbúnir einfaldir bekkir og svæðið gert vistlegt. Samsvarandi svæði er nú þegar fyrir hendi í Höfðaskógi en það hefur verið ágætlega nýtt af leikskóla- og grunnskólabörnum.

Útikennslusvæðið í Gráhelluhrauni verður mun nær byggðinni en svæðið í Höfðaskógi. Það verður í göngufæri frá leikskólunum í Setbergshverfi og gæti auk þess hentað skólabörnum sem stunda nám í Öldutúnsskóla og Setbergsskóla.

Á liðnu sumri gerði félagið samning við Landgræðslusjóð um að minnast hjónanna Hjálmars R. Bárðarsonar skipaverkfræðings, siglingamálastjóra og ljósmyndara og eiginkonu hans Else S. Bárðarson. Voru þau barnlaus og létu eftir sig miklar eignir sem Hjálmar ánafnaði nokkrum félögum og stofnunum. Þar á meðal voru Landgræðslusjóður, Landgræðsla ríkisins og Fuglaverndarfélag Íslands. Hjálmar hafði mikla trú á lúpínu sem landgræðsluplöntu og lagði svo til í erfðaskrá sinni að hluta fjárins yrði varið til landgræðslu þar sem áður var lítt gróið bersvæði og lúpína hefði gert landið vænlegt til skógræktar. Stofnaður var minningarsjóður um þau hjón sem starfa mun í 10 ár. Úr þessum sjóði var Skógræktarfélagi Hafnarfjarðar veittur styrkur til að hefja gróðursetningu á nokkurra hektara spildu í Vatnshlíð norðan Hvaleyrarvatns. Þar er byrjað að vinna að gerð minningarreits, planta út trjáplöntum og einnig er unnið við gerð hólma í vestanverðu Hvaleyrarvatni. Hjálmar var einn merkasti fuglaljósmyndari landsins og það er ætlunin að gera svæðið að kjörlendi fyrir fugla og fuglaskoðara í framtíðinni.

Nokkrir fulltrúar Skógræktarfélagsins sóttu aðalfund Skógræktarfélags Íslands sem haldinn var í Grundarfirði í byrjun september. Meðal þess sem var á dagskrá fundarins voru skoðunarferðir um útnesið og komið var við í skógarlundum í námunda Grundafjarðar, Ólafsvíkur og Hellissands. Kom það mörgum á óvart hversu vel hefur tekist í skógræktarmálum á þessum slóðum, því lengi vel var talið að ekki væri nokkur leið að rækta þarna trjágróður þar sem jarðvegurinn er afar grunnur og mikið um hraun og sjávarseltan á greiða leið að gróðrinum.  

Eins og undanfarin ár mættu stjórnarmenn og fleiri sjálfboðaliðar til starfa fyrir jólin og sinntu sölu jólatráa. Trén sem Jólaþorpið og ýmis fyrirtæki í Hafnarfiðri og víðar fengu voru sótt í skógræktarsvæði félagsins. Þaðan komu einnig nokkur tré sem fóru í sölu hérna á félagssvæðinu en megnið af trjánum fengum við austan af Héraði. Ennfremur fengum við slatta af stórum trjám úr Haukadalsskógi vegna þess að hraðast gekk á stærstu trén í jólatrjáasölunni.

Steinar Björgvinsson var gerði fjölmargar skreytingar af ýmsu tagi og munaði verulega um þessa viðbót í starfseminni. Steinar hefur gert samsvarandi skreytingar nokkur undanfarin ár en að þessu sinni gekk sala þeirra betur en nokkru sinni fyrr.

Skógræktarblaðið Þöll kom út fyrir jólin og var því dreift inn á öll heimili í bænum. Ingvar Viktorsson, ritari félagsins, sá um að koma efni blaðsins heim og saman í góðri samvinnu við félagsmenn og Margréti Ástu Jónsdóttur  hjá Steinmarki sem annaðist umbrots vinnu.

Á forsíðunni Þallar er falleg ljósmynd af Silkitoppu sem Björgvin Sigurbergsson tók, en hann er á góðri leið með að verða einn færasti fuglaljósmyndari landsins. Inni í blaðinu eru fleiri ljósmyndir frá honum, ásamt fróðlegum skrifum Steinars Björgvinssonar um fugla skógarins. Margar fróðlegar greinar er að finna í blaðinu og það er mál manna að sérstaklega vel hafi tekist til með efnisval, uppsetningu og allan frágang blaðsins. Ingvar Viktorsson og allir þeir sem komu að vinnslu Þallar á 65 ára afmæli félagsins fá bestu þakkir fyrir frábæra vinnu.    

Ræktunarstarfið
Félagið fékk mun færri plötnur í fjölpottabökkum frá Landgræðslusjóði en árið þar á undan vegna þess að vorið og sumarið voru óvenju köld á Austurlandi. Framleiðslan á plöntum sem félagið átti að fá gekk ekki upp vegna kuldans. Félagið fékk sem betur fer nokkuð af plöntum frá gróðrastöð á Akranesi sem Skógræktarfélag Íslands yfirtók. Fjöldi trjáplatna sem plantað var út á liðnu ári voru rúmlega 52 þúsund talsins. Þar af  voru plöntur úr fjölpottabökkum tæplega 48 þúsund og plöntur úr tveggja lítra pottum rúmlega 4 þúsund. Þessar trjáplöntur er hægt að verðleggja á um það bil 12 milljónir króna.

Af einstökum trjátegundum var lang mest gróðursett af sitkagreni, eða rúmlega 21 þúsund plöntur. Tæplega 13 þúsund stafafurur voru gróðursettar, tæplega 5 þúsund reyniviðar plöntur og rúmlega 4 þúsund alaska aspir. Alls voru gróðursettar 87 tegundir sem samræmist þeirru stefnu sem fylgt hefur verið undanfarin ár að fjölga verulega trjátegundum á ræktunarsvæðum félagsins.  

Í Seldal var haldið áfram að útbúa leikjaflatir sem byrjað var á sumarið 2010 og borinn á þær áburður og grasfræi sáð í alla ógróna bletti. Síðasta sumar var trjákurl borið í stígana sem ruddir voru í dalnum árið 2010. Notaðir voru um 40 rúmmetrar af trjákurli í stígana, sem Gámaþjónustan færði Skógræktarfélaginu ókeypis.

Allt síðasta sumar var unnið að viðhaldi göngustíga í Höfðaskógi, en mikil vinna fer í að slá gras og annan gróður sem vex í köntum stíga. Einnig þurfti að stinga upp gróður sem skotið hafði rótum í stígunum. Var það gert til þess að koma í veg fyrir að stígarnir fari á kaf í gróður en gróskan hefur verið slík að mikil hætta er á að stígarnir hverfi á nokkrum árum ef þeim er ekki haldið við á hverju ári. Í nokkra stíga þurfti að keyra möl, en það er nánast árvisst að viðbótar malarefni og trjákurl þarf til að halda stígunum góðum.    

Áfram var haldið við að rjúfa gróðursvæði með því að slá lúpínu og útbúa rásir sem nýtast sem göngustígar og marka jafnframt eldvarnarhólf, en það er verk sem verður að setja aukinn kraft í eftir því sem gróðurheildirnar stækka.

Þegar skógar stækka og þéttast er nauðsynlegt að sinna grisjun, sem verður sífellt meira aðkallandi í þéttum skógarreitum. Óvenju mikið var unnið við grisjun í skógunum á síðasta ári en Skógræktarfélagið fékk m.a. tvo vana skógarhöggsmenn í þá vinnu í um mánaðartíma í vetrarbyrjun 2011. Nýttust starfskraftar þeirra ágætlega en mest var unnið við grisjun á stafafuru í Selhöfðanum og það efni m.a. notað í jólaþorpinu. Einnig var grisjað í Klifsholti og í Höfðaskógi.  

Eitt af því sem starfsmenn félagsins gera árið um kring er að fara um upplandið og hreinsa rusl og allskyns úrgang sem fólk skilur eftir á víðavangi. Sem fyrr fór talsverður tími og fyrirhöfn í hreinsunarstarfið, en það er með ólíkindum hvað fólki dettur í hug að skilja eftir í guðsgrænni náttúrunni. Mikilvægt er að sinna þessari vöktun allt árið um kring og hirða jafnharðan það sem skilið er eftir á víðavangi og koma því til förgunar í Sorpu.

Nokkrir sjálfboðaliðar mæta til starfa á hverju einasta ári og veita félaginu ómælt lið með vinnu framlagi sínu. Félagsandinn skiptir okkur miklu máli og framlag almennra félagsmanna, landnemanna og annarra sem taka þátt í ræktun og grisjun er okkur mikils virði.

Það má alls ekki gleyma því að leikskólabörn, grunnskólabörn, kennarar og liðsmenn í ólíkum félagasamtökum og fyrirtækjum í bænum hafa í gegnum tíðina lagt drjúga hönd á plóg við ræktun bæjarlandsins. Sama gildir um fjölmarga einstaklinga og fjölskyldur sem hafa sameinast um að rækta landið okkar og hlúa að gróðrinum.

Eins og undanfarin ár lagði Landsvirkjun félaginu til vinnuflokk skipaðan ungu fólki og pallbíl. Þessir starfsmenn unnu hjá okkur í átta vikur. Einnig komu ungmenni úr Vinnuskólanum til starfa í mislangan tíma á liðnu sumri. Allt þetta kraftmikla unga fólk leggur sig fram um að vinna vel og það munar verulega mikið um aðkomu þess að starfinu í skóginum. Það er með sannri ánægju sem ég færi öllu þessu góða fólki hugheilar þakkir Skógræktarfélags Hafnarfjarðar fyrir árvekni, alúð og atorku. Æskufólkið mun erfa landið og það er frábært hvað mörg ungmenni koma til starfa hjá okkur ár eftir ár.  

Breyting á stjórn
Einn stjórnarmaður hefur óskað eftir því að láta af störfum í stjórninni þó kjörtímabil hans renni ekki út fyrr en á næsta ári. Þetta er Níels Árni Lund sem var kosinn í stjórn félagsins árið 2000 og varð formaður félagsins árið 2002. Níels Árni var formaður út starfsárið 2007 og eftir það féllst hann á að vera áfram í stjórn félagsins, vegna þrábeiðni okkar sem vorum með honum í stjórn félagsins. Níels Árni hefur verið traustur og skemmtilegur félagi og jafnan verið glatt á hjalla á fundum okkar. Svo er Níels Árni góður hagyrðingur og hefur samið ótalmarga gamanbragi og sem við höfum notið góðs af og hann á einstaklega létt með að drífa alla með sér í söng. Stjórn Skógræktarfélags Hafnarfjarðar sér á eftir góðum félaga með kærleika og þökk í huga. Níels Árni Lund hefur starfað að skógræktarmálum með okkur í 12 ár og skilað farsælu og óeigingjörnu starfi í þágu skógræktar samfélagsins. Vonandi megum við eiga hann að í nánustu framtíð þó svo að hann kjósi nú að hverfa úr stjórn.

Níels Árni gat ekki verið með okkur hérna í kvöld við sendum honum miklar þakkir fyrir allt sem hann hefur lagt af mörkum í gegnum tíðina.

Hann bað mig um að færa ykkur öllum sína bestu kveðjur með ósk um velgengni til handa félaginu og allra velunnara þess. Jafnframt hef ég verið beðinn um kveðjur frá Sigurði Einarssyni og Magnúsi Gunnarssyni, stjórnarmönnum, sem eru ekki á landinu eins og stendur.

Stjórnamenn og fjölmargir félagsmenn hafa tekið þátt í fræsöfnun, gróðursetningu, grisjun, jólatrjáasölu og mörgum öðrum verkefnum á vegum félagsins. Það var afskapalega gefandi að vinna með Lionsmönnum og verktökum að gerð Værðarstígs og Værðarhvamms í sumar.

Þessu fólki færi ég hugheilar þakkir, sem og Landnemum, félögum í Rósaklúbbi Garðyrkjufélags Íslands, Fuglavernd, Krabbameinsfélaginu, grunnskólum og leikskólum bæjarins, Landgræðslusjóði, Landsvirkjun, Fjarðarkaupum, Pokasjóði, Alcan, Skógræktarfélagi Íslands, Skógrækt ríkisins, Hafnarfjarðarbæ og svo ótal mörgum öðrum sem hafa lagt hönd á plóg með einum eða öðrum hætti. Þar að auki vil ég færa föstu starfsfólki og sumar starfsfólkinu kærar þakkir stjórnar félagsins, fyrir vel unnin störf á liðnu ári og undanförnum árum. Persónulega þakka ég öllum þeim sem hafa starfað í stjórn félagsins að undanförum árum fyrir gott og gefandi samstarf. Það er alltaf gaman á stjórnarfundum félagsins.   

Við búum svo vel að eiga fjölmarga vini sem leggja okkur lið á hverju ári. Öllum þessum vinum okkar og velunnurum þökkum við af alhug.

Án ykkar hjálpar væri félagið afskaplega máttvana.

Þakka ykkur öllum fyrir stuðninginn og megi ykkur vel farnast í nánustu framtíð.

Jónatan Garðarsson