Ræða formanns á aðalfundi 2010

Aðalfundur Skógræktarfélags Hafnarfjarðar, 18. mars 2010.

Góðir aðalfundarfulltrúar og aðrir gestir!

Starf Skógræktarfélags Hafnarfjarðar var í föstum skorðum árið 2009 eins og undanfarin ár, undir styrkri stjórn þríeykisins Hólmfríðar Finnbogadóttur framkvæmdastjóra félagsins, Steinars Björgvinssonar ræktunarstjóra og stjórnanda Gróðrastöðvarinnar Þallar og Árna Þórólfssonar skógarvörð félagsins. Þessi þrjú halda utan um alla þræði. Stjórnin er þeim til halds og trausts.

Stjórn Skógræktarfélagsins fundaði samkvæmt venju og voru haldnir sex bókaðir stjórnarfundir í Selinu, auk fjölmargra annarra funda við öll möguleg tækifæri. Einnig fóru fram skoðanaskipti milli stjórnarmanna í síma og ekki síst á netinu, sem er helsti samskiptamiðilinn í dag.  

Nokkur mál voru rædd á óformlegum fundum, en einnig sátu stjórnarmenn fundi með bæjaryfirvöldum og öðrum aðilum vegna málefna tengdu félaginu. Þessir fundir snerust m.a. um skipulagsmál og atvinnumál. Skógræktarfélagið tók þátt í að undirbúa Atvinnuátaksverkefni sem sett var af stað á síðasta ári í samvinnu við Skógræktarfélag Íslands og bæjaryfirvöld.   

Stjórnin fundaði einnig með skipulagshöfundum og embættismönnum vegna Rammaskipulags upplands Hafnarfjarðarbæjar sem er í vinnslu. Skipulagsmál koma reglulega inn á borð stjórnarinnar, m.a. vegna þess að byggðin og athafnasvæðin færast sífellt nær starfssvæði félagsins við Hvaleyrarvatn.

Nýjustu skipulags hugmyndir gera ráð fyrir golfvelli við vesturenda Hvaleyrarvatns sem mun fara yfir óraskað Selhraun og hluta af Kornstangarhrauni við Stórhöfða. Á þessum sömu slóðum er gert ráð fyrir knattspyrnuvöllum og öðrum íþróttamannvirkjum. Þarna er eitt af ræktunarsvæðum okkar sem væntanlega fer undir golfvöll eða sparkvöll.

Annað sem veldur okkur nokkrum áhyggjum er að samkvæmt fyrirliggjandi áætlun mun byggðin skríða fram yfir Vatnshlíðina í áttina að Hvaleyrarvatni ef hugmyndir að nýju skipulagi ná fram að ganga. Ef af þessu verður munu efstu hús í Áslandi vera steinsnar ofan við skógarsvæðið sem Hákon Bjarnason og fjölskylda hans ræktuðu á sínum tíma.  

Friðurinn sem áður var á útivistarsvæðinu við Hvaleyrarvatn hefur þráfaldlega verið rofinn á veturna, þegar vélhjólamenn hertaka ísilgat vatnið. Sömu aðlilar eiga það líka til að aka göngustíga sem Skógræktarfélagið hefur lagt.

Álíka vandamál kemur upp á hverju einasta vori þegar fáeinir hestamenn gera sér að leik að fara um stígana þegar frost er nýfarið úr jörðu. Reiðstígarnir sem lagðir hafa verið um allt upplandið nægja þessu fólki ekki og er þetta afskaplega hvimleitt þar sem örfáir einstaklingar skemma fyrir öllum öðrum hestamönnum með þessari framkomu sinni. Þessu til viðbótar eru nokkrir svartir sauðir sem setja upp eigin beitarhólf í viðkvæmum gróðurreitum og beita hrossum á trjágróðurinn. Þetta eru leiðindamál sem starfsfólk Skógræktarfélagsins hefur þurft að glíma við á hverju einasta sumri. Annars hefur sambúðin við langflesta hestamenn og aðra nágranna Skógræktarfélagsins í upplandinu verið ánægjulegt og til fyrirmyndar.

Ekki meira um þetta mál.

Starfsemi Skógræktarfélagsins gekk sinn vanagang á liðnu ári. Félagið fékk trjáplöntur í fjölpottabökkum frá Landgræðsluskógum eins og undanfarin ár. Þrátt fyrir að aðstæður væru ekki hagstæðar til útplöntunar vegna þurrka, voru gróðursettar 65 þúsund plöntur úr fjölpottabökkum að verðmæti um 7 milljón krónur. Þessu til viðbótar voru 2.600 stærri pottaplöntur gróðursettar að verðgildi um 4 milljónir króna. Síðustu ár hefur verið lögð mikil áhersla á að fjölga tegundum þeirra plantna sem gróðursettar eru til að auka fjölbreytnina og voru pottaplönturnar af 30 tegundum.

Hluti af sumarstarfinu fer jafnan í uppgræðslu og áburðargjöf. Á síðasta sumri var 1,2 tonnum af áburði 150 kílóum af grasfræi dreift á blásið og gróðursnautt land. Auk þessa var 1 tonn af áburði sett á trjáplöntur víðsvegar á ræktunarsvæðinu í Höfðalandi.  

Gerð nýrra stíga og viðhald eldri stíga er eitt af meginverkefnum hvers árs og spanna nýir stígar sem voru lagðir um 200 metra og aðrir 200 metrar voru endurbyggðir . Viðhald eldri stíga spannaði um 1.500 metra, en þeir voru malarbornir á nýjan leik, illgresi hreinsað og grisjað í kringum þá. Í þetta fóru 80 tonn af möl og var efnið flutt í hjólbörum og allt unnið með handverkfærum.

Talsvert magn af trjákurli var sett í nýja og eldri stíga, samtals 100 rúmmetrar. Kurlið fór aðallega í stíga í Höfðaskógi, svæðið umhverfis útikennslustofuna og nýja stíginn sem lagður var í Selhöfða, en hann er um 700 metra langur. Trjákurlið fékk félagið að gjöf frá Gámaþjónustunni og má meta verðmæti þess ásamt flutningi á rúma eina milljón krónur.

Sláttur meðfram stígum var gríðarmikill, en vegalengd stíganna sem slegnir voru nemur rúmum 6 kílómetrum. Meðal stíganna sem fengu sérstaka umönnun, var Gunnarsstígur, sem liggur á milli Ástjarnar og Hvaleyrarvatns. Hann var allur sleginn og breikkaður verulega. Þessi stígur er kenndur við Gunnar Svavarsson, fundarstjóra okkar hér í kvöld, sem óskaði eftir því við félagið á sínum tíma að stígurinn yrði lagður. Gunnarsstígur er nýtt örnefni í Hafnarfirði - takið eftir því.

Einu framkvæmdirnar á árinu fólust í viðhaldi húsa, en mestu munaði um það sem gert var í Höfða, sem verður 20 ára á þessu ári. Pallurinn tekinn í gegn og skipt um fúnar spýtur, og borið á allt húsið. Taka verður Selið í gegn í sumar með samskonar hætti.

Að vísu fengum við tvo geymslugáma frá Verktakafyrirtækinu Magna sem koma að góðum notum. Þessa gáma notar félagið til að geyma í verkfæri Skógræktarfélagsins og rekstarvörur fyrir Gróðrastöðina. Stærri gámurinn er 40 feta langur og minni gámurinn 20 feta. Magnamenn gerðu vel við okkur eins og svo oft áður og útbjuggu malarplan fyrir gámana. Þeim verður seint fullþakkað fyrir allt sem þeir hafa gert fyrir félagið á undanförnum árum.

Góður kjarni sjálfboðaliða kemur að starfinu á hverju einasta ári og þáttur þeirra er ómetanlegur. Sama gildir um Landnemana sem hafa hjálpað okkur við að rækta hið víðfeðma uppland. Þá má ekki gleyma hlutverki skólanna í bænum, félagasamtaka og fyrirtækja sem bera hlýjan hug til Skógræktarfélagsins. Þessi liður í starfi félagsins er mjög mikilvægur og framlag viðkomandi aðila skiptir okkur miklu máli. Við kunnum öllu því góða fólki sem hefur stutt okkur og tekið þátt í starfinu á einn eða annan hátt bestu þakkir fyrir stuðninginn.  

Meginþungi starfsins hefur verið í höndum starfsfólks félagsins og á sumrin bætast í hópinn vinnuflokkar sem við höfum verið svo heppin að fá til starfa hjá okkur ár eftir ár.

Flestar trjáplönturnar voru gróðursettar af ungmennahópnum sem starfa hjá okkur á hverju ári. Röskur hópur 23 ungmenna frá Landsvirkjun sinnti starfi sínu af samviskusemi og trúmennsku í 40 daga síðasta sumar. Eins og fyrr lagði Landsvirkjun hópnum til pallbíl sem kom sér afskaplega vel en auk þess sá fyrirtækið um að flytja hópinn til og frá Höfðaskógi á morgnana og síðdegis. Þessi dugmikli vinnuhópur á vegum Landsvirkjunar hefur reynst félaginu afskaplega dýrmætur undanfarin ár og má meta framlagið sem 10 milljón króna stuðning við félagið. Kunnum við krökkunum og Landsvirkjun hinar bestu þakkir fyrir velviljann í okkar garð.

Auk þessa ágæta vinnuflokks lagði Hafnarfjarðarbær okkur til 18 manna vinnuskólahóp ungmenna frá 14 til 16 ára, og til viðbótar voru 9 ungmenni á aldrinum 17 til 21. árs á vegum bæjarins í vinnu hjá okkur. Öll þessi ungmenni  sinntu störfum sínum af alúð og erum við afskaplega stolt af því að hafa fengið þau til starfa hjá okkur og þökkum þeim og bæjaryfirvöldum af heilum hug.

Atvinnuátaksverkefnið tókst ágætlega og voru 10 manns við lagningu stíga, grisjun og alveg undir lokin útplöntun í land bæjarins ofan við vatnstankinn við Káldárselsveg. Sem dæmi um vinnuframlag þessa hóps má nefna stíg frá Kaldárseli að Helgafelli. Auk þess var hluti Selvogsgötu stikuð ásamt Kaldárselsleiðinni í Bugum, svo fátt eitt sé nefnt.

Skógræktarfélagið nýtur þess  að starfsfólkið er í fremstu röð og það hefur með áhuga sínum og elju haldið öllu í föstum skorðum þrátt fyrir efnahagslægð og þrengingar á árinu. Á sama tíma og mörg félög hafa þurft að kljást við félagsdeifð og áhugaleysi hefur okkar félag vaxið og dafnað. Það er ekki síst að þakka Hólmfríði, Steinari og Árna sem eru vakin og sofin í starfi sínu.

Um leið og ég færi Hólmfríði, Steinari og Árna bestu þakkir okkar í stjórninni fyrir þeirra góðu verk, vil ég einnig þakka sjálfboðaliðum, stuðningsaðilum og félagsmönnum fyrir þeirra framlag og ekki síst trygglyndi og trúnað við Skógræktarfélagið.  

Megi starfsemi Skógræktarfélags Hafnarfjarðar verða jafn blómleg á komandi árum og hingað til og bæjarlandið halda áfram að skrýðast fagurri gróðurkápu.   

Kærar þakkir.
Jónatan Garðarsson