Linnetstréð

Frásagnir Hafnfirðinga af tráræktartilraunum fyrri tíma

Úr gagnasafni Skógræktarfélags Hafnarfjarðar

Að því er næst verður komist, er það fyrsti vísir til trjáræktar hér í Hafnarfirði að Hans Adolf Linnet kaupmaður gróðursetti reyniviðarsprota bak við verslunar- og íbúðarhús sitt. En til þess eru meðal annars þau tildrög, er nú skal greina.

Árni hét maður og var Gíslason. Hann bjó hér í bæ þeim er kallaður var Brekkubær. Árni átti fé og beitti hann því í afréttuna hér suður og austur frá Hafnarfirði. Af smalamennskum og göngum til kinda varð hann gagnkunnugur hér í afréttarlöndum, og er haft eftir honum að hann myndi rata í hvaða veðri sem væri hér í fjallinu. Því var þessi vísa kveðin:

Árni ratar ávalt vel

ef hann hefur brama.

Þó að geri þoka og él

það er alveg sama.

Á þessum göngum sínum um fjallið hafði Árni oft veitt því athygli að trjágróður nokkur var í hrauninu, var það helst birki, en þó hafði hann einnig fundið reynihríslur, smáar að vísu, í gjám og klettaskorum. Frá þessu sagði hann oft er hann stóð í búðum kaupmanna. Þetta varð til þess að Hans Adolf Linnet kaupmaður fékk hann eitt vor á árinum 1865-70 til að fara og sækja álitlega hríslu. Árni varð skjótt við þessari bón. Sótti hann sprotann upp í svonefndan Óbrinnishólabruna. Reyniviðarsproti þessi var svo gróðursettur bak við verslunar- og íbúðarhús Hans Adolfs Linnets í austur frá eldhús- og svefnherbergisglugganum. Var þar gert utanum reitinn vel og vandlega, að skepnur kæmust ekki að reyniviðarsprotanum. En þarna ofan við var gerði eða gjóta, Grútargjóta var hún kölluð meðan Linnet hafði þarna lifrarbræðslu. En seinna hlaut hún nafnið Linnetsgerði og náði frá verslunarhúsinu upp fyrir þangað sem nú eru húsin Austurgata 17 og 19.

Þarna í skjólinu bak við húsin dafnaði tréð vel og óx undra fljótt. Ekki varð stofninn alveg beinn, því hann óx fyrst nokkuð hallur, en er hann var vel metershár tók hann hlykk á sig og óx þá beinn upp. Er hann var orðinn því nær mannhæð frá hnénu, þá greindist stofninn í nokkrar greinar, þrjár eða fjórar, en svo þær greinar aftur í margar smærri greinar og breiddist þá krónan út fögur og mikil um sig. Má á gömlum myndum sjá að trjákrónan gnæfir hátt yfir húsþökin.

Rætur trésins uxu að sama skapi. Uxu þær vítt um gerðið, en þó var sú rótin stærst og öflugust, sem óx undir sökkul hússins og var svo mikil um sig að hún sprengdi sökkulinn. Teigði sig og geindi undir gólfið og allt í stíginn framan við húsið. Þegar þar var grafið löngu seinna fundust þar rætur frá reynitrénum. Það er kunnara en frá þurfi að segja, að forfeður vorir í heiðni höfðu mikinn átrúnað í trjám og lundum og höfðu á þeim mikla helgi. Það er einnig kunnugt, að enn hafa menn slíkan átrúnað á trjám og trjágróðri, og eitt skáld okkar kveðjru: "Menningin vex í lundum nýrra skóga". H.H.

Svo var og um þetta tré Linnets, á því hafði fjölskyldan hið mesta dálæti og var stolt af því. Og í fótspor, ef svo mætti segja, fetuðu allir Hafnfirðingar. Þeir höfðu dálæti á þessu tré og voru stoltir af því.

Þegar H.A. Linnet andaðist 2. nóvember 1894, komust húseignir hans í eigu tengdasonar hans Jörgen Hansen og þar með reyniviðartréð, sem stundum eftir það var kallað Hansenstréð. Svo bar við í nóvember 1911, að upp kom eldur í Linnetsverslunarhúsi. Skemmdist verslunarhúsið mikið af eldi og vatni en slökkviliðinu tókst að verja "Nýja pakkhúsið" sem stóð vestan til við það, og stendur enn. En tveir voru það sem báru ekki sitt barr eftir þennan bruna: Jörgen Hansen kaupmaður og reyniviðurinn.

Jörgen Hansen, sem fram að þessu hafði verið glaður og reifur við alla og hvers manns hugljúfi, stangarbeinn í baki, léttur og kvikur í hreyfingum og söng jafnan hergöngulög er hann var á göngu, bognaði nú í baki, varð hægfara og þungur á göngu og gleðin var horfin. Svo var og með reyniviðinn. Í brunanum sviðnaði af því nær allur börkurinn og limið varð fyrir stórskemmdum. Hann stóð þarna, einstæðingur, sviptur allri prýði.

Litlu síðar eignuðust aðrir menn þarna lóð og lendur. Nýtt hús skyldi rísa upp af rústum þess er brann. Þegar grunnur þess var grafinn var tréð orðið fyrir. Þá var það að Ágúst kaupmaður Flygenring fékk að taka upp tréð og flutti hann það í garðinn við hús sitt og valdi því besta staðinn í honum miðjum. Var þetta gert af mikilli tryggð og ekslu til þessa elsta trés í Hafnarfirði, að það mætti halda áfram að prýða bæinn og geyma minningu þeirra Linnets kaupmanns og Árna í Brekkubæ. En þetta mistókst. Tréð mun hafa borið blöð fyrstu árin, en frostaveturinn 1918 kólu rætur þess svo, að það laufgaðist ekki eftir það. Það var höggvið og á eld kastað. Þessi urðu þá ævilök fyrsta trésins er gróðursett var í Hafnarfirði.

Samkvæmt frásögn Karólínu Árnadóttur og Sveins Jónssonar, einnig Ingólfs Flygenring.

Úr sagnablöðum Skógræktarfélags Hafnarfjarðar.