Trjárækt í Hafnarfirði 1813

Fyrstu alvöru tilraunir til skógræktar í Hafnarfirð sem vitað er um.

Riddari Bjarni Sívertsen flutti hingað til lands á árinu 1813, 500 viðarplöntur af ýmsum tegundum frá Skotlandi, svo enn væri reynt að koma hér upp skógi. Sú ógæfa vildi til, að hann átti útivist langa í þetta sinn, mætti hrakningum og varð að afferma skip sitt á Orkneyjum og bæta skaða þann er hann hafði fengið í hafinu. Vegna þessara slysa voru nokkrar viðarplöntur hans er hingað komu nær dauða en lífi, og sumar aldeilis viðskila. Sumar plönturnar setti hann niður í Hafnarfirði og þó einstaka hafi síðan útdáið, eru þó fleiri lifandi og hafa náð nokkrum þroska. En þeim plöntum sem annarsstaðar voru niður settar og hann útbýtti til þeirra manna, er hann ætlaðist að helst mundu leggja alúð á að reyna hvort ungvið þetta gæti eigi þrifist á hólma vorum, er sagt að hafi reitt verr af. Oft hef ég heyrt riddarann yfir því kvarta, að hann kynni ei að fara með þessar plöntur né rækta tilhlýðilega. En þó þetta tiltæki heppnaðist ei að þessu sinni, mun honum samt eigi þykja hluturinn fullreyndur, því bæði gerði það skaða ungviðinu, að svo lengi var án moldar, og líka er ei til þess ætlandi, að maður fái, en aðeins hefur lesið um meðferð hlutarins, þó vel sé gáfaður, kunni eins vel með að fara og þeir sem séð hafa aðferðina og numið allt handlag með því að leggja hönd á verkið.

Tekið hefur hann eftir því, að þegar vindur stendur af sjó, visna blöð á plöntunum þeim megin er að sjónum veit, og af því dregur hann þá ályktun, að betur muni fara að gjöra þessar tilraunir lengra frá sjó.

Mun vera ritað af séra Árna Helgasyni, prófasti í Görðum árið 1817.

Úr sagnablöðum Skógræktarfélags Hafnarfjarðar.