Skógarstígur – leiðarlýsing

Skógarstígurinn er tengileið milli Ástjarnar og skógarsvæðanna við Hvaleyrarvatn sem er stikaður og grófruddur. Félagsmenn og starfsfólk Skógræktarfélags Hafnarfjarðar lögðu stíginn og stikuðu í samráði við Skipulags- og byggingasvið Hafnarfjarðar.

Skógarstígurinn hefst við Ástjörn á móts við Hádegisskarð og liggur um lægsta hluta Ásfjallsaxlar vestari. Leiðin liggur fremur ofarlega í axlarhlíðinni og fer yfir línuveginn um lágan ás, nærri Grófarlæk sem liðast um Grófirnar í grunnum gilskorningi. Framundan á hægri hönd í suðvestri er Bleikisteinsháls og Hamranesið fjær. Sveigt er til austurs í áttina að Vatnshlíðarhnúki þar sem stígurinn hækkar þar til komið er á Vatnshlíðarhnúk. Þar er gott útsýni og hægt að velja um tvær leiðir að Hvaleyrarvatni. Vestari stígurinn liggur að Cuxhavenlundi við Hvaleyrarvatn, milli Vatnshlíðargils og skógarreits fjölskyldu Hákons Bjarnasonar. Þaðan er hægt að velja nokkrar gönguleiðir.

Eystri leiðin liggur ofan við skógarreitinn í áttina að Sandvík Hvaleyrarvatns. Þar er hægt staldra við eða halda áfram umhverfis vatnið og feta sig eftir fjölbreyttu stígakerfi í Höfðaskógi.