Skógarstæðið í Víðistöðum

Sú klausa er hér fer á eftir stendur í blaðinu Fjallkonan 19. júní 1908:

Hafnfirðingar höfðu það til hátíðarbrigðis afmælisdag Jóns Sigurðssonar að stofna hjá sér ungmennafélag. Hlaut það nafnið Ungmennafélagið 17. júní. Framkvæmdahugur var mikill í félagsmönnum, enda margvísleg mál er ungmennafélög hafa á stefnuskrá sinni. Þar á meðal að klæða landið skógi.

Hafnfirðingar létu sig ekki vanta í hóp þeirra brautryðjenda. Því til sönnunar stendur eftirfarandi í sama blaði 28. apríl 1909:

Ungmennafélagið 17. júní í Hafnarfirði hefur fengið lofun fyrir landi til skógræktar í nánd við bæinn í Víðistöðum.  Félagið er tekið til við að vinna við skógarstæðið – girða það. Vinna flestir félagar að því með eigin höndum, karlar og konur í frístundum sínum og miðar verkinu furðuvel áfram. Hugsað er til að rækta þarna tré í næsta mánuði.

Lengri eru upplýsingar Fjallkonunnar ekki. En staðreynd er að þarna voru á þessu vori gróursettar um eitt þúsund trjáplöntur. Garðhleðsla og undirbúningur var eins og fyrr segir framkvæmdur af félögum. Stofnuðu þeir um þetta nokkurskonar hlutafélag, þannig að fyrir 5 kr. vinnu fengu menn hlutabréf og mun eitthvað af þeim enn vera til hér meðal gamalla 17. júní félaga. Árið 1910 fór Árni Helgason sem nú er verkfræðingur í Chicago til náms í trjárækt upp að Rauðavatni. Hvernig þessum trjágróðri í Víðistöðum reiddi af er mér ekki kunnugt. En mjög dofnaði yfir starfi þessa ungmennafélags eftir 1910 og það leið alveg undir lok 1913. En margir eru þeir Hafnfirðingar sem harma það að þarna skyldi ekki rísa upp almennur skemmtistaður með trjám og blómstrum.

Úr sagnablöðum Skógræktarfélags Hafnarfjarðar

Reykdalstrén

Um og eftir aldamótin 1900 er Jóhannes Reykdal setti sig hér niður og stofnaði til timuburverksmiðju reksturs, rafveitu og fleira, byggði hann hús í brekkunni [Brekkugötu]í norskum stíl. Mun það hafa verið 1905 eða þar um bil. Vestan til við húsið gerði hann garð og setti þar niður nokkrar reyniviðarhríslur, sem hann mun hafa fengið bæði frá Noregi og eins norðan frá Akureyri. Munu þær hríslur þá vera ættaðar úr Hvammskriðum í Vatnsdal, því þaðan eru flest reyniviðartrén á Akureyri ættuð. Hús þetta keypti síðar Guðmundur skipstjóri Magnússon og hélt hann garðinum og trjánum vel við og þau hjónin. En 1929 brann hús þetta. Síðar reisti Hlutafélagið Dvergur skrifstofuhús á lóðinni, en vestan við það er garðurinn og standa trén enn.

Samkvæmt frásögn Guðmundar Magnússonar og Odds Ívarssonar

Úr sagnablöðum Skógræktarfélags Hafnarfjarðar

Egilsentrén

Árið 1904 byggði Þorsteinn Egilsen hús [Strandgata 25] það er síðar komst í eigu Einars kaupmanns Þorgilssonar. Árið 1905 kvæntist hann þriðju konu sinni Rannveigu Thordal, fædd Síverstsen. Hús þetta er talið standa í Brúarhraunslóð, en nánar tiltekið er það í lóð tveggja gamalla bæja, sem undir lok voru liðnir um 1880 og hét sá vestari Þorkellskofi, líka Björnskofi, en sá eystri hét Geirþrúðarbær. Ofarlega í þessari lóð var svo hús þetta reist. Myndaðist því allstór forgarður við húsið. Var garður þessi fyrst varinn með grjótgarði fram við Sjávargötuna, síðar Strandgötuna. Hlið var á garði þessum miðsvegar og gangstígur upp að framdyrum, er skipti garðinum í tvennt.

Árið 1905 um vorið mun frú Rannveig þegar hafa gróðursett rifsberjarunna í eystri hlutanum, en í vestari hlutanum gróðursetti hún skandinavískt reynitré, og stóð það í garðinum miðjum. Ofar í garðinum gróðursetti hún heggtré og íslenskar reyniviðarhríslur. Ekki döfnuðu tré þessi vel. Mun þar mestu um hafa valdið saltmengaður jarðvegur og svo sjávarlöður sem dreif á land upp og yfir garðinn frá Brúarhraunsvör og Brúarhraunskletti. Svo mikið er víst að skandinavíski reyniviðurinn stóð því nær alveg í stað þar til komnar voru uppfyllingar framan við Strandgötuna, nema hvað stofninn gerðist bolgildur mjög. Þegar uppfyllingin var komin, tók tréð nokkuð að vaxa. Um 1940 var íslenski reyniviðurinn dauður, en þá var skandinavíski reyniviðurinn og heggtréð flutt upp í Sléttuhlíð að sumarbústað þeirra bræðra Þorgilsar og Ólafs Einarssonar. En garðurinn sjálfur var nokkru síðar lagður undir Strandgötuna  við þær breytingar er á henni voru gerðar.

Samkvæmt frásögn Þorgilsar Einarssonar

Úr sagnablöðum Skógræktarfélags Hafnarfjarðar

Briemstrén

Á síðasta áratug nítjándu aldar fluttist hingað Gunnlaugur Briem til Hafnarfjarðar og gerðist verslunastjóri hjá Knudtzon. Hann var kvæntur konu af dönskum ættum. Hafði hún hið mesta yndi af blómarækt og trjágróðri. Þau hjón bjuggu í Bjarnahúsi Sívertsen. Eins og allir vita stendur það í túni Akurgerðis. Frú Briem lét því skipta gerðinu í þrennt. Neðst var grasflötin, næst húsunum. Þar upp af kom langur grasbekkur, ekki ýkja breiður og var þar reynitrjám plantað. Einu þessara trjáa var plantað á fæðingardegi Garðars Flygenring 1895. Þá plöntu mun Matthías Þórðarson hafa sótt og plantað, en hann var þá verslunarstjóri hér hjá Briem. Að líkindum hafa þau, hann og frú Briem, svo sett hana niður. Ofan þessa trjábekks upp í kvosinni hafði frú Briem blómabeð og vermireiti og mátti sjá þeirra merki allt fram undir 1920. Eftir að þau Briemshjón fluttust burtu var lítið hirt um þessi verk frúarinnar. Tók þá garðurinn að drabbast niður, nema eitt ár er Jes Gíslason var hér við verslun Bryde þá hugsaði hann og kona hans mjög vel um garðinn. Eftir það var hann umhirðulaus. Þau urðu afdrif þessara reynitrjáa í Akurgerði að frostaveturinn 1918 kólu þau svo að þau laufguðust ekki eftir það, en um nokkur ár mátti sjá trjástofnana grotna niður. Nú sér þess engin merki að þarna hafi verið fagur blóma- og trjágarður, vafinn umhyggju og hjartahlýju.

Samkvæmt frásögn Gísla Gunnarssonar og Garðars Flygenrings, einnig Maríu Kristjánsdóttur.

Úr sagnablöðum Skógræktarfélags Hafnarfjarðar.

Sýslumannstrén

Annar í röðinni að gróðursetja tré var Franz Siemsen sýslumaður. Árið 1886 byggði hann sýslumannshúsið og árið eftir 1887 eða þar um bil gróðursetti hann reyniviðartré þau sem enn standa við suðurgafl hússins. Það var Gísli bóndi Einarsson í Stekk í Garðahreppi sem færði Franz sýslumanni reyniviðarangana, en þau hjón munu hafa gróðursett þá. Reyniviðaranga þessa sótti Gísli suður í Almenning. Tré þessi standa enn.

Samkvæmt frásögn Ólafs Böðvarssonar.

Úr sagnablöðum Skógræktarfélags Hafnarfjaðar.

Reyniviðartrén voru við suðurgafl Sýslumannshússins þar sem embættið var til húsa þar til það flutti á efstu hæð hússins sem Oliver Steinn bóksali byggði við Strandgötu. Þar er verslun Pennans Eymundsson í dag. Bifreiðaeftirlitið var í suðurhluta Sýslumannshússins um árabil en þegar bílastæði var útbúið við húsið voru trén flutt á Sýslumannstúnið norðan við húsið og sunnan við Hafnarfjarðarkirkju. Þar var útbúinn skrúðgarður með trjágróðri og blómabeðum ásamt grasflötum. Göngustígur var lagður skáhalt í gegnum garðinn og þar var komið fyrir bekkjum þannig að fólk gat sest þar niður á góðviðrisdögum og notið þess sem garðurinn hafði upp á að bjóða. Á Sýslumannstúninu var brjóstmynd af Þórði Edilonssyni lækni sem fimm hafnfirskar konur fengu Ríkarð Jónsson til að gera og var upphaflega á Thorsplani en seinna á Sýslumannstúninu. Styttan er núna við Heilsugæslustöðina á Sólvangi.

Þegar fyrsta skóflustunga var tekin að safnaðarheimilinu Strandbergi og Tónlistarskóla Hafnarfjarðar haustið 1992 var Sýslumannstúninu fórnað og enginn virðist vita nákvæmlega hvað varð um trén sem þar höfðu verið gróðursett. Nokkrum dögum seinna var Sýslumannshúsið flutt yfir Suðurgötuna þar sem það var gert upp á lóðinni nr. 11. Nú er það íbúðarhús eins og það var í öndverðu og sómir sér vel á nýja staðnum og þar hafa verið gróðursett falleg tré rétt eins og í gamla daga.  

Linnetstréð

Frásagnir Hafnfirðinga af tráræktartilraunum fyrri tíma

Úr gagnasafni Skógræktarfélags Hafnarfjarðar

Að því er næst verður komist, er það fyrsti vísir til trjáræktar hér í Hafnarfirði að Hans Adolf Linnet kaupmaður gróðursetti reyniviðarsprota bak við verslunar- og íbúðarhús sitt. En til þess eru meðal annars þau tildrög, er nú skal greina.

Árni hét maður og var Gíslason. Hann bjó hér í bæ þeim er kallaður var Brekkubær. Árni átti fé og beitti hann því í afréttuna hér suður og austur frá Hafnarfirði. Af smalamennskum og göngum til kinda varð hann gagnkunnugur hér í afréttarlöndum, og er haft eftir honum að hann myndi rata í hvaða veðri sem væri hér í fjallinu. Því var þessi vísa kveðin:

Árni ratar ávalt vel

ef hann hefur brama.

Þó að geri þoka og él

það er alveg sama.

Á þessum göngum sínum um fjallið hafði Árni oft veitt því athygli að trjágróður nokkur var í hrauninu, var það helst birki, en þó hafði hann einnig fundið reynihríslur, smáar að vísu, í gjám og klettaskorum. Frá þessu sagði hann oft er hann stóð í búðum kaupmanna. Þetta varð til þess að Hans Adolf Linnet kaupmaður fékk hann eitt vor á árinum 1865-70 til að fara og sækja álitlega hríslu. Árni varð skjótt við þessari bón. Sótti hann sprotann upp í svonefndan Óbrinnishólabruna. Reyniviðarsproti þessi var svo gróðursettur bak við verslunar- og íbúðarhús Hans Adolfs Linnets í austur frá eldhús- og svefnherbergisglugganum. Var þar gert utanum reitinn vel og vandlega, að skepnur kæmust ekki að reyniviðarsprotanum. En þarna ofan við var gerði eða gjóta, Grútargjóta var hún kölluð meðan Linnet hafði þarna lifrarbræðslu. En seinna hlaut hún nafnið Linnetsgerði og náði frá verslunarhúsinu upp fyrir þangað sem nú eru húsin Austurgata 17 og 19.

Þarna í skjólinu bak við húsin dafnaði tréð vel og óx undra fljótt. Ekki varð stofninn alveg beinn, því hann óx fyrst nokkuð hallur, en er hann var vel metershár tók hann hlykk á sig og óx þá beinn upp. Er hann var orðinn því nær mannhæð frá hnénu, þá greindist stofninn í nokkrar greinar, þrjár eða fjórar, en svo þær greinar aftur í margar smærri greinar og breiddist þá krónan út fögur og mikil um sig. Má á gömlum myndum sjá að trjákrónan gnæfir hátt yfir húsþökin.

Rætur trésins uxu að sama skapi. Uxu þær vítt um gerðið, en þó var sú rótin stærst og öflugust, sem óx undir sökkul hússins og var svo mikil um sig að hún sprengdi sökkulinn. Teigði sig og geindi undir gólfið og allt í stíginn framan við húsið. Þegar þar var grafið löngu seinna fundust þar rætur frá reynitrénum. Það er kunnara en frá þurfi að segja, að forfeður vorir í heiðni höfðu mikinn átrúnað í trjám og lundum og höfðu á þeim mikla helgi. Það er einnig kunnugt, að enn hafa menn slíkan átrúnað á trjám og trjágróðri, og eitt skáld okkar kveðjru: "Menningin vex í lundum nýrra skóga". H.H.

Svo var og um þetta tré Linnets, á því hafði fjölskyldan hið mesta dálæti og var stolt af því. Og í fótspor, ef svo mætti segja, fetuðu allir Hafnfirðingar. Þeir höfðu dálæti á þessu tré og voru stoltir af því.

Þegar H.A. Linnet andaðist 2. nóvember 1894, komust húseignir hans í eigu tengdasonar hans Jörgen Hansen og þar með reyniviðartréð, sem stundum eftir það var kallað Hansenstréð. Svo bar við í nóvember 1911, að upp kom eldur í Linnetsverslunarhúsi. Skemmdist verslunarhúsið mikið af eldi og vatni en slökkviliðinu tókst að verja "Nýja pakkhúsið" sem stóð vestan til við það, og stendur enn. En tveir voru það sem báru ekki sitt barr eftir þennan bruna: Jörgen Hansen kaupmaður og reyniviðurinn.

Jörgen Hansen, sem fram að þessu hafði verið glaður og reifur við alla og hvers manns hugljúfi, stangarbeinn í baki, léttur og kvikur í hreyfingum og söng jafnan hergöngulög er hann var á göngu, bognaði nú í baki, varð hægfara og þungur á göngu og gleðin var horfin. Svo var og með reyniviðinn. Í brunanum sviðnaði af því nær allur börkurinn og limið varð fyrir stórskemmdum. Hann stóð þarna, einstæðingur, sviptur allri prýði.

Litlu síðar eignuðust aðrir menn þarna lóð og lendur. Nýtt hús skyldi rísa upp af rústum þess er brann. Þegar grunnur þess var grafinn var tréð orðið fyrir. Þá var það að Ágúst kaupmaður Flygenring fékk að taka upp tréð og flutti hann það í garðinn við hús sitt og valdi því besta staðinn í honum miðjum. Var þetta gert af mikilli tryggð og ekslu til þessa elsta trés í Hafnarfirði, að það mætti halda áfram að prýða bæinn og geyma minningu þeirra Linnets kaupmanns og Árna í Brekkubæ. En þetta mistókst. Tréð mun hafa borið blöð fyrstu árin, en frostaveturinn 1918 kólu rætur þess svo, að það laufgaðist ekki eftir það. Það var höggvið og á eld kastað. Þessi urðu þá ævilök fyrsta trésins er gróðursett var í Hafnarfirði.

Samkvæmt frásögn Karólínu Árnadóttur og Sveins Jónssonar, einnig Ingólfs Flygenring.

Úr sagnablöðum Skógræktarfélags Hafnarfjarðar.

  

Trjárækt í Hafnarfirði 1813

Fyrstu alvöru tilraunir til skógræktar í Hafnarfirð sem vitað er um.

Riddari Bjarni Sívertsen flutti hingað til lands á árinu 1813, 500 viðarplöntur af ýmsum tegundum frá Skotlandi, svo enn væri reynt að koma hér upp skógi. Sú ógæfa vildi til, að hann átti útivist langa í þetta sinn, mætti hrakningum og varð að afferma skip sitt á Orkneyjum og bæta skaða þann er hann hafði fengið í hafinu. Vegna þessara slysa voru nokkrar viðarplöntur hans er hingað komu nær dauða en lífi, og sumar aldeilis viðskila. Sumar plönturnar setti hann niður í Hafnarfirði og þó einstaka hafi síðan útdáið, eru þó fleiri lifandi og hafa náð nokkrum þroska. En þeim plöntum sem annarsstaðar voru niður settar og hann útbýtti til þeirra manna, er hann ætlaðist að helst mundu leggja alúð á að reyna hvort ungvið þetta gæti eigi þrifist á hólma vorum, er sagt að hafi reitt verr af. Oft hef ég heyrt riddarann yfir því kvarta, að hann kynni ei að fara með þessar plöntur né rækta tilhlýðilega. En þó þetta tiltæki heppnaðist ei að þessu sinni, mun honum samt eigi þykja hluturinn fullreyndur, því bæði gerði það skaða ungviðinu, að svo lengi var án moldar, og líka er ei til þess ætlandi, að maður fái, en aðeins hefur lesið um meðferð hlutarins, þó vel sé gáfaður, kunni eins vel með að fara og þeir sem séð hafa aðferðina og numið allt handlag með því að leggja hönd á verkið.

Tekið hefur hann eftir því, að þegar vindur stendur af sjó, visna blöð á plöntunum þeim megin er að sjónum veit, og af því dregur hann þá ályktun, að betur muni fara að gjöra þessar tilraunir lengra frá sjó.

Mun vera ritað af séra Árna Helgasyni, prófasti í Görðum árið 1817.

Úr sagnablöðum Skógræktarfélags Hafnarfjarðar.

Margar hendur vinna létt verk

Ungmenni á aldrinum 16 til 20 ára hafa nokkur undanfarin ár komið til starfa hjá Skógræktarfélaginu á sumrin fyrir tilstuðlan samfélagsverkefnisins „Margar hendur vinna létt verk“ sem Landsvirkjun hefur haldið úti um árabil. Þessi ungmenni hafa jafnan reynst vandanum vaxin og sýnt dugnað og áreiðanleika í öllum verkefnum sem þeim hafa verið falin. Störfin sem ungmennin hafa innt af hendi eru fjölbreytileg, en mest ber á gróðursetningu á uppgræðslusvæðum félagsins, stígagerð og viðhaldi stíga og eldri gróðurreita.

Unga fólkið sem skipar sumarvinnuhópinn hverju sinni er skólafólk sem kýs að starfa að náttúrutengdum verkefnum sem Landsvirkjun styrkir árlega af mikilli rausn. Sérlega ánægjulegt hefur verið að fylgjast með þessum frísku og vinnufúsu ungmennum og það munar verulega um vinnuframlag þeirra. Algengt er að sömu ungmennin komi til starfa ár eftir ár og skapast hefur traustur og ómetanlegur vinskapur milli þeirra og starfsmanna félagsins í gegnum tíðina. Þessi stuðningur Landsvirkjunar við Skógræktarfélagið hefur skipt sköpum í starfseminni undanfarin ár og gert það að verkum að hægt hefur verið að framkvæma mun meira en annars hefði verið.

Útivist við Hvaleyrarvatn

Það er hægt að njóta útivistar við Hvaleyrarvatn allt árið um kring. Á vorin fjölgar fólki við vatnið sem sækir í útiveruna í þessari kyrrlátu kvos. Þegar trjágróðurinn vaknar af vetradvala skrýðist landið og laufþekjan klæðir hlíðarnar fagurgrænum lit. Á sumrin tekur við fjólublár litur blómstrandi lúpínubreiðanna. Síðsumars lengjast skuggarnir þegar sól fer að lækka á lofti og birtuspilið á vesturhimni verður stórbrotið. Haustlitirnir við Hvaleyrarvatn eru engu líkir og á veturnar þegar vatnið er ísi lagt er hægt að renna sér fótskriðu eða skoða hvernig frostið gyllir strá og greinar, steina og börð.  

Skógurinn er fyrir fólkið

Þegar Skógræktarfélag Hafnarfjarðar var stofnað haustið 1946, beindu menn sjónum sínum strax að svæðinu austan Hvaleyrarvatns. Bæjaryfirvöld úthlutuðu umbeðnu landi, en þegar til átti að taka vorið 1947 treystu félagsmenn sér ekki til að hefja ræktunarstarf á blásnum melum vegna þess hversu seint voraði. Þessvegna varð nyrsti hluti Gráhelluhrauns fyrir valinu og þar var unnið að uppgræðslu fyrsta árin.  

Skin og skúrir í sögu félagsins

Þegar Skógræktarfélags Íslands var stofnað 1930 voru nokkrir Hafnfirðingar á meðal stofnenda og á næstu árum bættust fleiri í hópinn. Skógræktarfélag Íslands var stofnað sem höfuðfélag skógræktarmála og ráðgefandi aðili fyrir héraðsfélög vítt og breitt um landið. Félagið var janframt einskonar héraðsfélag skógræktarfólks í Reykjavík og Hafnarfirði til að byrja með. Þetta fyrirkomulag var afar þunglamalegt og haustið 1946 var ákveðið að stofna sérstök héraðsfélög í Reykjavík og Hafnarfirði.

Útikennslustofan í Höfðaskógi

Laugardaginn 3. maí 2008 var formlega tekin í notkun útikennslustofa í fallegum lundi við Húshöfða, á athafnasvæði Skógræktarfélags Hafnarfjarðar.

Hjónin Hörður Zóphaníasson og Ásthildur Ólafsdóttir gáfu Skógræktarfélagi Hafnarfjarðar peningagjöf á 60 ára afmæli félagsins árið 2006. Gjöfinni fylgdi sú ósk þeirra hjóna að hún yrði notuð til að fræða ungt fólk um gildi skógræktar og uppgræðslustarfs og til að sýna hversu fjölbreytt not má hafa af skógum.

Sléttuhlíð – sveitarómantík við bæjarmörkin

Sléttuhlíð og hluti Gráhelluhrauns tilheyrðu áður fyrr upplandi Hamarskots, sem var ein af hjáleigum kirkjustaðarins í Görðum. Kotið var nokkurnvegin þar sem Flensborgarskóli stendur í dag á Hamrinum. Hjáleigubændur í Hamarskoti höfðu selstöðu í Hamarskotsseli, sem var nánast samtengt Setbergsseli vestan Háanefs og norðan Sléttuhlíðarhorns. Þar er merkilegur hellir í hraunrás sem er opinn í báða enda og var í eina tíð nefndur Selhellir. Sitthvoru megin við hellisopin voru selin; að norðan var Setbergssel en að sunnan var Hamarskotssel. Hellinum var skipt í tvennt með grjóthleðslu sem enn sést móta fyrir, þó hún sé að mestu hrunin. Með þessu móti gátu báðir aðilar nýtt hellinn sem geymslu fyrir afurðirnar sem unnar voru í seljunum.  

Skuggsjá framtíðarsýn

Fyrri hluta árs 1910 gáfu prentararnir Jón Helgason og Karl H. Bjarnason út ópólitískt frétta- og sögublað í Hafnarfirði sem hlaut nafnið Skuggsjá. Blaðið átti að koma út 3-4 sinnum í mánuði og tók Helgi Valtýsson kennari við ritstjórninni frá 3. tölublaði. Skuggsjá varð ekki langlíft blað þar sem Prentsmiðja Hafnarfjarðar var seld og flutt til Eyrarbakka. Einvörðungu komu út 11. tölublöð, það síðasta 10. maí 1910, nokkrum dögum áður en prentsmiðjan var tekin niður. Jón og Karl komu prentsmiðunni aftur í gang á Eyrabakka og gáfu út vikublaðið Suðurland.

Skógarstígur – leiðarlýsing

Skógarstígurinn er tengileið milli Ástjarnar og skógarsvæðanna við Hvaleyrarvatn sem er stikaður og grófruddur. Félagsmenn og starfsfólk Skógræktarfélags Hafnarfjarðar lögðu stíginn og stikuðu í samráði við Skipulags- og byggingasvið Hafnarfjarðar.

Skógarreitir með sögu

Tileinkaðir brautryðjendum og velunnurum skógræktar

Í hraða nútímans gleymist stundum að staldra við, líta um öxl og setja sig í spor þeirra brautryðjenda sem tóku sér stöðu á fyrri hluta tuttugustu aldar og ákváðu að leggja ómældar frístundir í að græða upp landið og klæða það trjágróðri á ný. Landið var víða illa farið í nágrenni Hafnarfjarðar enda þótti ekki árennilegt að hefja uppgræðslu á örfoka holtum, ásum, hlíðum, leirflögum og hraunflákum á fyrri hluta síðustu aldar. Engu að síður svöruðu margir kalli tímans þegar Skógræktarfélag Hafnarfjarðar var stofnað haustið 1946 og tóku þátt í ræktunarstarfinu af einurð og bjartsýni.