Fréttir

Gróðursett í Vatnshlíð

Rúmlega 30 félagsmenn í Skógræktarfélagi Hafnarfjarðar mættu á sunnudagsmorgni 27. september í Vatnshlíð til að gróðursetja rúmlega 1.300 trjáplöntur í ræktunarreit sem kenndur er við hjónin Hjálmar R. Bárðarson og Else Sörensen Bárðarson. Þetta hefur verið fastur liður í starfsemi félagsins á undanförnum árum og hafa félagsmenn jafnan tekið virkan þátt í þessu skemmtilega starfi. Á myndinni sést megnið af hópnum sem tók þátt í gróðursetningunni. 

Fræðsluganga í Hellisgerði

Steinar Björgvinsson framkvæmdarstjóri Skógræktarfélags Hafnarfjarðar fór fyrir göngu um Hellisgerði fimmtudagskvöldið 31. júlí 2014. Gangan var hluti af menningargöngum um Hafnarfjörð í sumar sem Hafnarborg og Byggðasafn Hafnarfjarðar standa að. Þessar göngur hafa verið vel sóttar og vakið talsverða lukku.

Það mættu rúmlega eitt hundrað manns í Hellisgerði og nutu þess að hlýða á fróðleik Steinars um plöntur og trjágróður í Hellisgerði, en saga garðsins spannar níutíu ár hvorki meira né minna. Steinar er vel að sér í flórunni og sagði skilmerkilega frá og svaraði fyrirspurnum göngufólks um mismunandi efni sem tengjast gróðri og ræktun í Hellisgerði. 

Hellisgerði er um margt einstakur garður og þar er til dæmis einn mesti fjöldi beykitrjáa á landinu. Meðal annarra trátegunda sem vekja athygli eru blæaspir frá Norðurlandi sem fjölga sér með rótarskotum, merkilegt tré sem kallað er Dögglingsviður á íslensku og er frá Bandaríkjunum, birkitré úr Þórsmörk, reyniviður úr Þórsmörk og Hraununum sunnan við Hafnarfjörð, gráösp frá fyrstu árum garðsins sem flutt var inn frá Danmörku og sitthvað fleira.   

Opið í Þöll 9. júní, Annan í Hvítasunnu.

Gróðrarstöðin Þöll er opin í dag, annan í Hvítasunnu frá kl. 10.00 - 17.00. Mikið úrval af trjám og runnum. Síminn er: 555-6455. 15% afsláttur af öllum plöntum fyrir félaga í skógræktarfélögum og Garðyrkjufélagi Íslands.

Dagskrá sumarsins

Dagskrá 2014

·        Fimmtudagur 27. mars: Aðalfundur félagsins verður haldinn í Hafnarborg, Strandgötu 34 kl. 20.00.

·        Laugardagur 26. apríl: Skyggnst í skóginn. Í tilefni Bjartra daga verður gengið kl. 14:00 um Höfðaskóg og yfir í skóginn í Selhöfða. Þar hefur mikið starf hefur verið unnið í grisjun að undaförnu. Skógurinn í Selhöfða var gróðursettur snemma á níunda áratug síðustu aldar.

·        Laugardagur 31. maí: Hin árlega fuglaskoðun í Höfðaskógi og við Hvaleyrarvatn. Lagt af stað frá Selinu, bækistöðvum félagsins og Þallar við Kaldárselsveg kl.10.00.

·        Laugardagur 7. júní: Viðarvinir verða með handverkssýningu á tálguðum, renndum og útskornum munum í Selinu, bækistöðvum félagsins við Kaldárselsveg, milli kl. 10.00 – 18.00 (Sigurjón Ingvarsson).

·        Fimmtudagur 17. júlí: Ganga um skóginn í Undirhlíðum. Lagt af stað frá Kaldárseli og gengið inn í Skólalund.

·        Sunnudagur 27. júlí: Skógar- og útivistardagur fjölskyldunnar. Árleg hátíð í Höfðaskógi og nágrenni sem haldin er í samstarfi við ýmsa aðila í Hafnarfirði. Dagskráin stendur á milli kl. 14.00 – 17.00. Nánar auglýst síðar.

·        Laugardagur 13. september: Svokallaður „sjálfboðaliðadagur“. Gróðursett verður í Vatnshlíð í minngarlund um hjónin Hjálmar R. Bárðarson og Else S.Bárðarson. Mæting í Vatnshlíð norðan Hvaleyrarvatns kl. 10.00.

·        Laugardagur 18. október: Gengið um Setbergshverfið. Mæting við Setbergsskóla. Gengið verður um hverfið og hugað að garðagróðri. Hvert er hæðsta tré hverfisins?

·        Jólatrjáasala: Jólatrtjáa- og skreytingasla félagsins verður í Selinu við Kaldárselsveg í desember eins og endranær.

Sala á jólatrjám

Sala á jólatrjám hefst hjá Skógræktarfélagi Hafnarfjarðar fyrsta sunnudag í aðventu, 2. desember næstkomandi. Starfsmenn félagsins eru á fullu þessa dagana að velja tré og greinar úr skóginum, fella og og flytja allt saman heim á hlað við Selið í Höfðaskógi. Þetta er nokkuð viðamikið starf enda tekur drjúgan tíma að ganga um skógarsvæðin, velja trén og merkja þau áður en þau eru felld. Síðan þarf að koma þeim út úr skóginum og upp á bílpall og aka með þau í höfuðstöðvar félagsins við Kaldárselsveg. Þar verður trjánum stillt upp til sölu þegar þar að kemur. Hluti trjánna sem verða til sölu koma úr skógræktarreitunum umhverfis Hvaleyrarvatn og víðar, en þó nokkur hluti trjánna sem verða til sölu koma austan af Héraði og jafnvel frá öðrum skógarsvæðum. Mestur hluti trjánna sem koma af ræktunarsvæði félagsins fara á ákveðna staði í bænum en það er nóg til af trjám fyrir alla. Mest verður selt af stafafuru eins og undanfarin ár en einnig er boðið upp á rauðgreni og blágreni og jafnvel fleiri tegundir ef þess verður óskað. Hægt verður að kaupa rótartré enda vilja einhverjir eiga kost á því að geta gróðursett falleg tré þegar fer að vora. Eins undanfarin ár verður einnig hægt að kaupa greinar, hurðakransa og skreytingar.

Árni Þórólfsson, Steinar Björgvinsson og Jökull Gunnarsson starfsmenn félagsins bera ábyrgðina á því að nóg verði til af fallegum jólatrjám, en þeim til halds og trausts eru tveir af öflugustu sjálfboðaliðum félagsins, Svanur Pálsson og Þorkell Þorkelsson. Þeir hafa jafan verið til taks þegar á hefur þurft að halda og hafa lagt félaginu til ómældar vinnustundir í sjálfboðavinnu í gegnum tíðina. Fleiri félagar hafa komið að þessu starfi undanfarin ár og má þar til dæmis nefna Arnar Helgason, Gunnar Þórólfsson, Halldór Þórólfsson, Ásdísi Konráðsdóttur, Önnu Kristínu Jóhannsdóttur og marga fleiri auk þess sem það fólk sem skipar stjórna Skógræktarfélagsins hverju sinni tekur fullan þátt í sölunni og sinnir auk þess öðrum verkum sem til falla hverju sinni.

Margir eru farnir að hlakka til jólanna, ekki síst smáfólkið og þær eru ófáar fjölskyldurnar sem byrja jólaundirbúninginn á því að kaupa jólatré hjá Skógræktarfélaginu í desember og drekka síðan heitt súkkulaði og maula piparkökur og aðrar smákökur á eftir.

Helstu söludagarnir verða eftirfarandi helgar kl. 10:00 til 18:00, en einnig er hægt að koma í heimsókn í miðri viku:

Sunnudag 2. desember

Laugardag 8. desember

Sunnudag 9. desember

Laugardag 15. desember

Sunnudag 16. desember

Laugardag 22. desember.