45 manns mættu á aðalfund félagsins 28. mars 2019

 

Í kringum 45 manns mættu á aðalfund félagsins síðastliðinn fimmtudag. Gunnar Svavarsson var kjörinn fundarstjóri. Sigurður Einarsson formaður félagsins flutti skýrslu stjórnar og Steinar Björgvinsson skýrslu framkvæmdstjóra. Árni Þórólfsson gjaldkeri fór yfir ársreikning félagsins. Að loknum umræðum um skýrslu formanns, framkvæmdastjóra og kynningu á ársreikningi félagsins var ársreikningurinn borinn undir fundinn og samþykktur samhljóða.

Gyða Hauksdóttir og Hallgrímur Jónasson áttu að ganga úr stjórn. Þau gáfu bæði kost á sér til áframhaldandi setu í stjórn félagsins. Engin mótframboð bárust og voru þau kosin til áframhaldandi setu í stjórn. Ásdís Konráðsdóttir og Þorkell Þorkelsson voru endurkjörin sem skoðunarmenn reikninga. Vara-skoðunarmaður var kjörinn Gunnar Þórólfsson.

Að loknum aðalfundarstörfum og kaffihléi flutti Brynhildur Bjarnadóttir dósent við Háskólann á Akureyri áhugavert erindi sem hún nefndi "Kolefnisbinding í trjám og gróðri".

Áður en fundi var slitið var fundarstjóra, Brynhildi og Marselínu Pálsson, en hún sá um veitingar í hléi, færð plöntugjöf frá félaginu, vaxlífviður (Thujopsis dolabrata).

Á myndinni eru frá vinstri: Sigurður Einarsson formaður félagsins, Gunnar Svavarsson fundarstjóri, Brynhildur Bjarnadóttir Háskólanum á Akureyri, Steinar Björgvinsson framkvæmdastjóri félagsins og Lína Pálsson sem sá um veitingar á fundinum.