Sjálfboðaliða-gróðursetningardagur 22. sept. '19

  Við ætlum að gróðursetja í hlíðarnar þar sem sorphaugar bæjarins voru áður, skammt fyrir sunnan Hamranes á móts við Hamranesflugvöll við Hvaleyrarvatnsveg. Plöntur og verkfæri verða á staðnum. Allir velkomnir. Margar hendur vinna létt verk. Boðið verður upp á hressingu í Þöll að gróðursetningu lokinni. Nánari upplýsingar í síma Skógræktarfélags Hafnarfjarðar: 555-6455 eða 894-1268.

Sveppaganga

Matsveppirnir í skóginum. Helena Marta Stefánsdóttir náttúrurfræðingur verður leiðsögumaður í sveppagöngu um Höfðaskóg þriðjudaginn 17. september kl. 17.30. Mæting við vesturenda Hvaleyrarvatns þar sem hús bæjarins stóð áður. Takið með ykkur körfu (eða bréfpoka), hníf og sveppahandbók ef þið eigið slíka.

Þöll opin laugardaginn 24. ágúst til kl. 16.00

 

Gróðrarstöðin Þöll er opin laugardaginn 24. ágúst (Menningarnótt) frá kl. 11.00 til 16.00. Mikið úrval af runnum og trjám í garða, sumarhúsalóðir, til skógræktar og skjólbeltaræktunar. 

Erum við Kaldárselsveg í Hafnarfirði. 

Síminn er: 555-6455 eða 894-1268. 

Vel mætt í skógargöngu

 

Fjöldi manns mætti í skógargöngu síðastliðið fimmtudagskvöld 15. ágúst. Gangan var skipulögð af Æskulýðs og tómstundaráði Hfj. Gengið var um Höfðaskóg. Gengið var í gegnum trjá- og rósasafnið. Leiðsögumenn voru Árni Þórólfsson og Steinar Björgvinsson. 

Sjálfboðliðdagur félagsins verður í september. Hrekkjavökugangan svo í lok október. Þessir viðburðir verða nánar auglýstir síðar. 

 

Viðarvinir með sýningu laugardaginn 8. júní

 

Viðarvinir, hópur handverksfólks, verða með sýningu á renndum, útskornum og tálguðum munum úr tré í Þöll laugardaginn 8. júní 2019 frá kl. 10.00 - 18.00. Allir velkomnir. Gróðrarstöðin er auðvitað opin á sama tíma. Sjáumst.

Opið 17. maí til kl. 18.00

 

Þöll verður opin í dag, föstudaginn 17. maí 2019, frá kl. 09.00 - 18.00. Er komin með skógarplöntur, hnausplöntur og fleira. 

45 manns mættu á aðalfund félagsins 28. mars 2019

 

Í kringum 45 manns mættu á aðalfund félagsins síðastliðinn fimmtudag. Gunnar Svavarsson var kjörinn fundarstjóri. Sigurður Einarsson formaður félagsins flutti skýrslu stjórnar og Steinar Björgvinsson skýrslu framkvæmdstjóra. Árni Þórólfsson gjaldkeri fór yfir ársreikning félagsins. Að loknum umræðum um skýrslu formanns, framkvæmdastjóra og kynningu á ársreikningi félagsins var ársreikningurinn borinn undir fundinn og samþykktur samhljóða.

Gyða Hauksdóttir og Hallgrímur Jónasson áttu að ganga úr stjórn. Þau gáfu bæði kost á sér til áframhaldandi setu í stjórn félagsins. Engin mótframboð bárust og voru þau kosin til áframhaldandi setu í stjórn. Ásdís Konráðsdóttir og Þorkell Þorkelsson voru endurkjörin sem skoðunarmenn reikninga. Vara-skoðunarmaður var kjörinn Gunnar Þórólfsson.

Að loknum aðalfundarstörfum og kaffihléi flutti Brynhildur Bjarnadóttir dósent við Háskólann á Akureyri áhugavert erindi sem hún nefndi "Kolefnisbinding í trjám og gróðri".

Áður en fundi var slitið var fundarstjóra, Brynhildi og Marselínu Pálsson, en hún sá um veitingar í hléi, færð plöntugjöf frá félaginu, vaxlífviður (Thujopsis dolabrata).

Á myndinni eru frá vinstri: Sigurður Einarsson formaður félagsins, Gunnar Svavarsson fundarstjóri, Brynhildur Bjarnadóttir Háskólanum á Akureyri, Steinar Björgvinsson framkvæmdastjóri félagsins og Lína Pálsson sem sá um veitingar á fundinum. 

Aðalfundur 2019

 

Aðalfundur Skógræktarfélags Hafnarfjarðar verður haldinn fimmtudaginn 28. mars 2019 í Apótekinu, Hafnarborg, Strandgötu 34. Fundurinn hefst kl. 20.00. Að loknum venjulegum aðalfundarstörfum mun Brynhildur Bjarnadóttir, Háskólanum á Akureyri flytja erindi sem hún nefnir "kolefnisbinding í trjám og gróðri". 

Félagið býður upp á kaffiveitingar í hléi. 

Takið daginn frá. 

Stjórnin.

Grisjað í Langholtinu

 

Undanfarnar vikur hafa starfsmenn félagsins unnið að grisjun og snyrtingu skóga félagsins m.a. í Langholti, Kjóadalshálsi og víðar. Einnig hefur verið farið um vegi í upplandinu og tré og runnar sem skaga út á akvegi og göngustíga söguð, klippt og snyrt. 

Þessi mynd var tekin 30. janúar 2019 í Langholtinu skammt sunnan við Þormóðshöfða. Á myndinni eru Árni Þórólfsson og Jökull Gunnarsson starfsmenn félagsins við þarfasta þjóninn, sexhjólið sem hjónin Halldóra og Þórólfur gáfu félaginu árið 2017. 

Á bakvið Árna og Jökul eru alaskaaspir sem gróðursettar voru fyrir um 20 árum þarna uppi á skjóllausu, grýttu holtinu. Ljósmynd: Steinar Björgvinsson

Vinsælum stígum haldið opnum

 

Starfsmenn félagsins hafa síðustu daga m.a. rutt snjó af stígnum í kringum Hvaleyrarvatn. Í gær (fimmtudaginn 24. janúar 2019) var göngustígurinn í Gráhelluhraunsskógi einnig ruddur. Eftir að Halldóra og Þórólfur gáfu félaginu sexhjól ásamt snjótönn höfum við getað rutt snjó af helstu gönguleiðum í skóginum til að auðvelda útivistarfólki að njóta svæðisins yfir háveturinn. 

Mikil almenn ánægja er meðal útivistarfólks með þetta framtak félagsins. 

Ef þið eruð ekki félagar endilega gerist félagar í Skógræktarfélagi Hafnarfjarðar. Með því að gerast félagar styðjið þið við uppbyggingu á útivistarsvæðinu í upplandi Hafnarfjarðar en félagið sér um hreinsun, uppgræðslu, grisjun, vöktun, fræðslu og fleira sem tengist útivistarsvæðinu. Árgjaldið er aðeins kr. 2.500,-. Allir félagar njóta 15% afsláttar af öllum plöntum í Þöll ehf. Fleiri fyrirtæki í græna geiranum bjóða einnig afslátt gegn framvísun félagsskírteinis. 

Til að gerast félagi ferðu einfaldlega í hnappinn "um félagið" hér að ofan og svo "gerast félagi" og fyllir inn í formið. Við sendum þér svo félagsskírteini og stofnum kröfu í heimabankanum.